VG vill skýrari svör til mannréttindanefndar SÞ

Vinstrihreyfingin-grænt framboð vill ítarlegri svör af hálfu stjórnvalda við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en send voru til nefndarinnar í síðustu viku. Þá gagnrýnir flokkurinn fullkomið samráðs- og aðgerðaleysi í málinu undanfarna 6 mánuði.

Í ályktuninni segir, að ríkisstjórnin hafi haft 6 mánuði til að taka álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna alvarlega og bregðast við með ítarlegum hætti. Svarbréfið sem nú ligg fyrir sé að uppistöðu til langdregin endurtekning á þeim vörnum sem íslenska ríkið hélt uppi í málinu þegar það var tekið fyrir á sínum tíma. Í niðurlagi svarbréfsins sé svo loks rýr og efnislítil klausa um að hugað verði að lengri tíma áætlun um endurskoðun á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu, eða aðlögun í átt að áliti mannréttindanefndarinnar.

„Vinstrihreyfingin - grænt framboð hvetur enn á ný til þess að settur verði nú þegar á fót þverpólitískur vettvangur til þeirrar nauðsynlegu endurskoðunarvinnu sem fara þarf fram, og hefði átt að vera kallaður saman fyrir löngu síðan. Þá skorar VG á ríkisstjórnina að taka á sig rögg og senda nefndinni ítarlegri og efnislegri svör við því hvernig tryggja skuli jafnræði landsmanna. Fyrir liggur að breyta þarf ranglátu kerfi fiskveiðistjórnunar sem valdið hefur úlfúð og harðvítugum deilum í samfélaginu um árabil," segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert