Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi mun ekki hafa nein áhrif á framtíð íslenskrar fiskveiðistjórnunar eða aflamarkskerfisins, enda álit nefndarinnar ekki skuldbindandi fyrir íslensk stjórnvöld, að mati Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).
„Við erum með lög og stjórnarskrá sem eru það sem gildir á Íslandi. Svo höfum við dómstóla og í raun má segja að það ákvæði samningsins sem þarna er fjallað um sé efnislega eins og ákvæði í stjórnarskrá Íslands. Hæstiréttur hefur túlkað stjórnarskrána og komist að því að fiskveiðistjórnun eins og við stundum hana sé í samræmi við það ákvæði.“
Friðrik sagði að sex nefndarmenn hafi tekið undir dóm Hæstaréttar en tólf nefndarmenn verið á annarri skoðun. Það breyti ekki því að íslensk lög og stjórnarskrá gildi hér og Ísland sé ekki skuldbundið til að fara að þessu áliti. Íslenska ríkinu beri því ekki að breyta lögum, greiða bætur eða annað slíkt. Friðrik taldi álitið vekja margar spurningar. T.d. sé talað um bætur en ekki skilgreint hvert tjónið sé. Ef fara ætti að þessu áliti væri hvergi hægt að stjórna fiskveiðum með arðbærum hætti.
Spurning hvar þetta endar
„Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þetta kerfi allt saman,“ sagði Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hann taldi of snemmt að segja til um það nú hvaða áhrif þessi niðurstaða mundi hafa fyrir íslenska sjómenn.
„Ég velti því fyrir mér hvar þetta endar? Hvað með alla þá sem, þrátt fyrir að lög banni að sjómenn taki þátt í kvótakaupum, láta sjómenn gera það í stórum stíl enn í dag? Kemur þetta því máli við? Er það bótaskylt og ef svo er hver á þá að borga bæturnar,“ spurði Sævar.
Hann sagði að sér þætti álitið allrar athygli vert og víst væri að það yrði skoðað ofan í kjölinn á næstunni. „Það hlýtur að vera visst áfall fyrir stjórnvöld og dómskerfið að þetta skuli koma svona fram. Ég myndi alla vega líta á það sem áfall fyrir mig að fá svona gusu yfir mig,“ sagði Sævar.