Breytir engu hér á landi

Álit mann­rétt­inda­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna sem fjall­ar um alþjóðasamn­ing um borg­ara­leg og stjórn­mála­leg rétt­indi mun ekki hafa nein áhrif á framtíð ís­lenskr­ar fisk­veiðistjórn­un­ar eða afla­marks­kerf­is­ins, enda álit nefnd­ar­inn­ar ekki skuld­bind­andi fyr­ir ís­lensk stjórn­völd, að mati Friðriks J. Arn­gríms­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna (LÍÚ).  

„Við erum með lög og stjórn­ar­skrá sem eru það sem gild­ir á Íslandi. Svo höf­um við dóm­stóla og í raun má segja að það ákvæði samn­ings­ins sem þarna er fjallað um sé efn­is­lega eins og ákvæði í stjórn­ar­skrá Íslands. Hæstirétt­ur hef­ur túlkað stjórn­ar­skrána og kom­ist að því að fisk­veiðistjórn­un eins og við stund­um hana sé í sam­ræmi við það ákvæði.“

Friðrik sagði að sex nefnd­ar­menn hafi tekið und­ir dóm Hæsta­rétt­ar en tólf nefnd­ar­menn verið á ann­arri skoðun. Það breyti ekki því að ís­lensk lög og stjórn­ar­skrá gildi hér og Ísland sé ekki skuld­bundið til að fara að þessu áliti. Íslenska rík­inu beri því ekki að breyta lög­um, greiða bæt­ur eða annað slíkt. Friðrik taldi álitið vekja marg­ar spurn­ing­ar. T.d. sé talað um bæt­ur en ekki skil­greint hvert tjónið sé. Ef fara ætti að þessu áliti væri hvergi hægt að stjórna fisk­veiðum með arðbær­um hætti.

Spurn­ing hvar þetta end­ar
„Þetta hlýt­ur að vera um­hugs­un­ar­efni fyr­ir þetta kerfi allt sam­an,“ sagði Sæv­ar Gunn­ars­son, formaður Sjó­manna­sam­bands Íslands, um álit Mann­rétt­inda­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna. Hann taldi of snemmt að segja til um það nú hvaða áhrif þessi niðurstaða mundi hafa fyr­ir ís­lenska sjó­menn.

„Ég velti því fyr­ir mér hvar þetta end­ar? Hvað með alla þá sem, þrátt fyr­ir að lög banni að sjó­menn taki þátt í kvóta­kaup­um, láta sjó­menn gera það í stór­um stíl enn í dag? Kem­ur þetta því máli við? Er það bóta­skylt og ef svo er hver á þá að borga bæt­urn­ar,“ spurði Sæv­ar.

Hann sagði að sér þætti álitið allr­ar at­hygli vert og víst væri að það yrði skoðað ofan í kjöl­inn á næst­unni. „Það hlýt­ur að vera visst áfall fyr­ir stjórn­völd og dóms­kerfið að þetta skuli koma svona fram. Ég myndi alla vega líta á það sem áfall fyr­ir mig að fá svona gusu yfir mig,“ sagði Sæv­ar.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert