Ekki forsendur til að greiða skaðabætur

Í svari til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mun íslenska ríkið lýsa yfir vilja sínum til að huga að lengri tíma áætlun um endurskoðun á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu eða aðlögun í átt að áliti mannréttindanefndarinnar, sem taldi kerfið brjóta gegn mannréttindum. Kærendum í málinu verða ekki greiddar skaðabætur.

Þetta kom fram hjá Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, á Alþingi á síðasta degi þingsins á fimmtudag. Einar sagði, að íslensk stjórnvöld hefðu falið þremur lögfræðingum, Björgu Thorarensen prófessor, Karli Axelssyni, hrl. og Arnari Þór Stefánssyni, hdl., að leggja fram mat á álitinu og tillögur um viðbrögð.

„Í svari til mannréttindanefndarinnar mun íslenska ríkið lýsa yfir vilja sínum til að huga að lengri tíma áætlun um endurskoðun á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu eða aðlögun í átt að áliti mannréttindanefndarinnar. Ljóst er þó að slíkt gerist ekki í einu vetfangi enda mun nefndin hafa skilning á því að kerfi sem hefur mótast á áratugum er ekki hægt að umbylta á sex mánuðum. Þetta er langtímaverkefni og sérstökum vinnuhópi verður falið það," sagði Einar.

Hann sagði að íslenska ríkið teldi ekki forsendur til þess að greidda skaðabætur til viðkomandi kærenda. „Slíkt gæti auk þess leitt til að fjöldi manns gerði skaðabótakröfur á hendur ríkinu sem fá í gildandi landsrétti ekki staðist, samanber dóm Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu. Auk þess mundi í þessu felast viðurkenning í þá veru að allir, sem eiga eða ákveða að kaupa skip með veiðileyfi, ættu rétt til úthlutunar aflaheimilda. Þessi staða mundi í raun þýða að íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu væri kollvarpað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir stjórn fiskveiðiauðlindanna og vernd fiskistofna á Íslandsmiðum," sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert