Skipuð verði Evrópunefnd

Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynna niðurstöðu miðstjórnar …
Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynna niðurstöðu miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Geir Haarde forsætisráðherra segir að ákveðið hafi verið á miðstjórnarfundi flokksins í dag að skipa sérstaka Evrópunefnd. Þá verður landsfundi Sjálfstæðisflokksins flýtt til 29. janúar til 1. febrúar og á Evrópunefndin að ljúka störfum fyrir þann tíma.

Formaður og varaformaður nefndarinnar eru Kristján Þór Júlíusson þingmaður og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Tillögur Geirs voru samþykktar einróma á fundi miðstjórnar flokksins, en miðstjórn og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins komu saman til fundar í Valhöll í hádeginu.

Geir segir að með þessu sé verið að skoða upp á nýtt það hagsmunamat sem liggi til grundvallar stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum. „Við höfum ævinlega lagt áherslu á það sé háð hagsmunamati hvernig samstarf okkar við Evrópulönd er háttað. Við göngum ekki til þess að taka afstöðu af því tagi á grundvelli trúarvissu eða trúarbragða, heldur á grundvelli þess hvernig við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið.“

Nefndin mun skoða stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, ríkjum Evrópu og valkostum Íslands í alþjóðasamstarfinu. „Þannig að við erum ekki að binda þetta eingöngu við Evrópusambandið,“ segir Geir.

Geir segir að það sé ekki aðeins réttlætanlegt heldur einnig nauðsynlegt að flýta landsfundinum, fundurinn átti að fara fram í október á næsta ári. Hann tekur fram að ekki sé komin fram ný stefna, það sé hlutverk landsfundarins að staðfesta stefnuna eða skipta um hana.

Geir segist ekki sjálfur hafa skipt um skoðun í Evrópumálunum en að hann gengi að þessu starfi með opnum huga. Vísaði hann m.a. til þess, að Evrópusambandið hefði nú sýnt Íslandi vígtennurnar í málum Icesave reikninga Landsbankans og til þess yrði væntanlega litið í þeirri vinnu, sem framundan er. „Viljum við vera innan bandalags eða sambands sem beitir hörðu þegar um er að ræða mikla hagsmuni af okkar hálfu? Þetta er allt saman sjónarmið sem fólk verður að taka með sér í þetta mat. En það þýðir ekki það að matið eigi ekki að fara fram,“ sagði Geir.

„Við erum ekki að svara Samfylkingunni með þessari vinnu sem að við erum að setja af stað. Allar ályktanir í þá átt eru náttúrulega bara út í hött. Við erum að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu á okkar eigin forsendum. Og við gerum það hratt vegna þess að við erum flokkur sem er fljótur að bregðast við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert