Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur MBL Sjónvarpi.
Enginn þeirra sem skipa nýja Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður Evrópusambandsaðildar. Einn þeirra hefur hinsvegar verið harður á móti, sjálfur forsætisráðherra. Kristján Þór Júlíusson er formaður og Árni Sigfússon varaformaður.
Kristján Þór segir að auk þeirra verði Geir H. Haarde með í starfinu frá upphafi. Hann segir að þrátt fyrir að nefndarmenn séu aðeins þrír verði flokksmenn virkjaðir til starfa og haft verði samráð við fjölmarga. Það verði í raun breiðfylking fólks sem kemur að því að móta stefnuna.
Kristján Þór segir að sín afstaða sé í samræmi við afstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Hún byggist ekki á fordómum. Ef það verði metið þannig nú að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið með því að ganga í Evrópusambandið, þá að sjálfsögðu geri hann ekki athugasemdir við það. Verkefnið sé að leggja mat á hvaða hagsmunir séu bestir fyrir landið í þeirri stöðu sem er komin upp í þjóðfélaginu. Tillaga nefndarinnar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar ráðist af því.