„Þetta er haugalygi," segir Júlíus Hafstein, sendiherra, um lýsingu í bókinni Sögu af forseta á fundi, sem hann átti sem fulltrúi forsætisráðuneytisins með forsvarsmönnum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar fyrri hluta árs 2003.
Í bókinni segir, að Íþrótta- og tómstundaráð hefði komið með fyrirspurn til forsætisráðuneytisins um það hvort ráðuneytið myndi koma að framkvæmd hátíðarhaldanna að morgni 17. júní á Austurvelli. Á fund, sem haldinn var í kjölfarið, kom Júlíus sem fulltrúi ráðuneytisins en Anna Kristinsdóttir, þáverandi formaður ÍTR og Gísli Eggertsson, núverandi aðstoðarframkvæmdastjóri ÍTR, sátu einnig fundinn.
Fram kemur, að Júlíus hafi á fundinum sagt, að vel gæti komið til greina að forsætisráðuneytið vildi breyta hátíðarhöldunum og teldi til dæmis ekki endilega rétt að forseti Íslands legði blómsveig að stalli styttu Jóns Sigurðssonar við hátíðahöld á Austurvelli. Segir í bókinni að Anna hafi sagt í samtali við Guðjón Friðriksson, bókarhöfund, að hún hefði horft furðu lostin á Júlíus. Ekkert hafi hins vegar verið gert í málinu frekar.
Júlíus sagði við mbl.is, að þessi lýsing væri fjarri öllum sanni. Einungis hefði verið rætt um hvort forsætisráðuneytið kæmi að hátíðarhöldunum en ekkert um framkvæmd þeirra eða dagskrá enda hefði Júlíus ekki haft umboð til slíks. Sagðist hann hafa rætt við Gísla Árna, sem hefði staðfest þetta.
Gísli Árni sagði einnig við mbl.is, að hann minntist þess ekki að slík mál hefðu komið til umræðu á fundinum.
Júlíus sagðist telja það lélega sagnfræði hjá Guðjóni Friðrikssyni, að hafa frásögn sem þessa aðeins eftir einum aðila en hafa ekki samband við aðra þá sem í hlut áttu. Sagðist hann hafa rætt við Guðjón um málið í dag.