700 milljóna sparnaður hjá RÚV

Starfsmenn RÚV koma til starfsmannafundar, sem lauk fyrir stundu.
Starfsmenn RÚV koma til starfsmannafundar, sem lauk fyrir stundu. mbl.is/Ómar

Ríkisútvarpið sagði í dag upp 21 starfsmanni og hefur að auki rift  samningum við 23 verktaka.  Allt í allt hverfa 45 starfsmenn frá RÚV.

Þá hefur verið ákveðið að hætta svæðisbundnum útsendingum RÚV á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

Endurskoðuð rekstraráætlun RÚV var kynnt á starfsmannafundi í dag. Samkvæmt henni verður skorið niður um 550 milljónir króna í rekstrinum.

Ákvörðun var tekin um hlutfallslegan niðurskurð á öllum sviðum en hann bitnar harðast á fréttasviði þar sem launakostnaður vegur mun þyngra þar en á öðrum sviðum.

Fréttasvið er það langstærsta en undir það heyra fréttastofur útvarps og sjónvarps, íþróttadeild, textavarp, vefur RÚV og svæðisstöðvarnar,auk morgunþátta og síðdegisþáttar Rásar 2. Um það bil 15 manns eða þriðjungur uppsagnanna bitnar á fréttasviði. Íþróttir verða harðast úti samkvæmt heimildum mbl.is.

Að auki á að ná fram 150 milljóna króna sparnaði með tímabundinni launalækkun. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun, til 12 mánaða eins og kynnt var á starfsmannafundi. Helstu yfirmenn, þeir sem hæst hafa launin, taka á sig 8-11% launalækkun. Þeir sem þar koma á eftir í launum sæta 6-7% launalækkun en sá hópur er langfjölmennastur. Þeir sem lægst hafa launin sleppa við launaskerðingu. Miðað er við að laun verði lækkuð frá og með næstu áramótum. Með þessu eiga að sparast 150 milljónir króna á ársgrundvelli.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu ohf. var mikill halli á rekstri félagsins  rekstrarárið 1. september 2007 til 31. ágúst 2008. Tap tímabilsins var 739,5 milljónir þar af má rekja um 600 milljónir til þess að verðbólga sé langt umfram áætlanir.  Tap undanfarinna tveggja ára valdi því að eigið fé sé næstum upp urið og stendur nú í 31 milljón króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka