Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði á fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í gær að óraunhæft væri að bera saman sjávarútveg á Íslandi og á Möltu. Hann sagði raunhæfara væri að horfa til Norðmanna með samanburð. Þeir hefðu ekki fengið neinar varanlegar undanþágur í samningaviðræðum við Evrópusambandið árið 1994. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.
Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa vísað til þeirra undaþága sem Malta fékk fyrir sinn sjávarútveg í aðildarsamningnum við ESB. Fram kom í ræðu Friðriks að heildarafli Maltverja hefði verið 1348 tonn árið 2006. Það er ívíð meira en Bárður SH 81 veiddi á síðasta fiskveiðiári. Bárður var þá 13,43 m langur aflamarksbátur, 19,67 brúttólestir að stærð, smíðaður 2001. Pétur Pétursson gerir bátinn út frá Arnarstapa. Þriggja manna áhöfn er á Bárði, að sögn Friðriks.
Auk Friðriks fluttu erindi á fundinum í gær þeir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og Högni Kristjánsson, skrifstofustjóri Evrópuskrifstofu utanríkisráðuneytisins.