Allt á suðupunkti við Alþingi

Eggjum og skyri hefur verið kastað í lögreglumenn, sems standa …
Eggjum og skyri hefur verið kastað í lögreglumenn, sems standa við Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

Mikil spenna ríkir í samskiptum mótmælenda og lögreglu við alþingishúsið. Lögregla beitti fyrir stundu piparúða á hóp mótmælenda sem er samankomin í Alþingisgarðinum. Einhverjir hafa verið handteknir til viðbótar við þann tug manna sem, handtekinn var fyrr í dag. Mótmælendur hafa kastað skyri í lögreglumenn en hátt á annað hundrað lögreglumenn eru við störf við þinghúsið.

Lögregla hefur ítrekað sagt mótmælendum að yfirgefa Alþingisgarðinn og bent á að mótmælin séu ólögleg. Eitthvað hefur fækkað í garðinum en mótmælendur láta enn duglega í sér heyra og mikil spenna er í lofti. Fólk hefur kastað eggjum, mjólk og skyri í lögreglumenn, sem standa við húsið.

Nokkur fjöldi mótmælenda hefur komið sér fyrir í innkeyrslu að bílakjallara Alþingis en mótmælendur hafa verið fluttir í lögreglubíla í kjallaranum en illa gekk að komast úr kjallaranum.

Samkvæmt upplýsingum bráðamóttöku Landspítalans hefur einn leitað aðhlynningar á bráðamóttöku vegna óþæginda af völdum piparúða. Sjúkrabílar eru við þinghúsið og veita mótmælendum aðhlynningu.

Þingfundur hófst á ný á fjórða tímanum en hlé var gert á þingstörfum laust fyrir klukkan þrjú. Á annað hundrað lögreglumenn eru við þinghúsið, stór hluti þeirra klæddur í óeirðabúninga, með hjálma, skildi og kylfur. Lögregla stendur enn varðstöðu hringinn í kringum Alþingishúsið.

mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert