„Innst inni er maður skíthræddur“

Frá mótmælum á Austurvelli í vikunni.
Frá mótmælum á Austurvelli í vikunni. mbl.is/Golli

„Viðbrögðin eru náttúrlega fyrst reiði, alveg gríðarleg reiði og svo hræðsla,“ segir eiginkona lögreglumanns sem slasaðist á miðvikudagsnóttina.

„Minn maður er ekki búinn að vera á götunni í mörg ár og ég er rosalega fegin því, vegna þess að mér finnst svo margt hafa breyst til verri vegar, hættan og álagið. Svo ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur þegar hann fer í vinnuna í mörg ár fyrr en núna.“

Konan, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, segist sjálf ekki hafa farið niður í bæ til að taka þátt í mótmælunum eða fylgjast með manni sínum að störfum en hún segist styðja mótmælin eftir sem áður.

„Ég skipti þessu alveg í tvo hópa. Ég dáist að fólkinu sem leggur það á sig að fara niður í bæ og mótmæla fyrir okkur hin, þótt ég hafi ekki verið það gallhörð að mæta sjálf. Svo eru það þessir óeirðaseggir sem vita örugglega ekkert út af hverju þeir eru þarna.“

Hún segir það hafa verið erfitt að fylgjast með öllum hinum myndræna fréttaflutningi af mótmælunum, ekki síst vegna barna þeirra hjóna. Óhjákvæmilega vakni sú tilfinning að vilja vernda börnin fyrir því að þurfa að óttast um pabba sinn. „Við erum með eina litla sem veit ekki og á heldur ekki að vita neitt af þessu. En unglingarnir vita alveg hvað er í gangi. Mig langaði helst að draga son minn frá sjónvarpinu en spurði sjálfa mig hvort það væri rétt. Þannig að á endanum horfðum við á fréttirnar saman og svo áttum við gott spjall á eftir þar sem ég gerði mitt besta til að draga úr þessu og segja honum að þetta væri bara lítill hópur og þeir væru vel varðir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert