Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur Mbl sjónvarpi.
Lögreglan beitti kylfum á mótmælendur í dag en ekki hefur verið gripið til svo harkalegra aðgerða fyrr í mótmælum eftir bankahrunið í október. Þór Jóhannesson, einn mótmælenda, segir lögregluna meðal annars hafa handleggsbrotið mann þegar hún ruddi leiðina frá húsinu til að koma þaðan fólki sem hafði verið handtekið í Alþingisgarðinum fyrr um daginn. Varðstjóri hjá lögreglunni segir sína menn einungis hafa gert það sem þurfti til að verja Alþingishúsið.
Fólk hefur drifið að Alþingishúsinu í allt kvöld. Flestir alþingismenn, þó ekki allir, eru löngu farnir úr húsinu en flestir fóru í gegnum kjallarann eftir göngum og yfir í annað hús sem Alþingi á í Kirkjustræti. Þaðan gátu þeir komist óséðir.
Rúður hafa verið brotnar í Alþingishúsinu að framanverðu og kynnt var undir heljarmikið bál undir kvöld.