Enn fjölgar á Austurvelli

Mikill mannfjöldi er nú framan við Alþingishúsið.
Mikill mannfjöldi er nú framan við Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

Enn fjölgar á Austurvelli og áætlar blaðamaður mbl.is þar að á þriðja þúsund manns séu þar. Eldur logar enn glatt í bálkesti, sem hlaðinn var framan við tengibyggingu Alþingis fyrr í kvöld og hefur fólk sótt eldsmat, svo sem timbur og bretti, á nálæg byggingarsvæði.

Reynt var einnig að kveikja í Óslóartrénu svonefnda, sem enn stendur á Austurvelli. Eldurinn náði hins vegar ekki að læsa sig í tréð.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er í viðbragðsstöðu að sögn varðstjóra hjá SHS.

Á þriðja tug mótmælenda voru handteknir í dag, en að sögn lögreglu hefur öllum verið sleppt. Nokkrir hafa verið teknir höndum í kvöld, en ekki liggur fyrir hversu margir.

Á annað hundrað lögreglumenn hafa verið á vakt í dag. Að sögn varðstjóra varð að kalla út aukamannskap vegna mótmælanna auk þess sem nokkrir lögreglunemar hafa verið fengir til aðstoðar. „Það er bara allt lögregluliðið eins og það leggur sig,“ sagði varðstjórinn í samtali við mbl.is.

Eldur logar glatt í bálkesti framan við þinghúsið.
Eldur logar glatt í bálkesti framan við þinghúsið. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka