Uppúr hefur soðið við Alþingishúsið þar sem hópur fólks er enn. Raunar virðist vera að fjölga í röðum mótmælenda á ný en nokkur hundruð manns eru nú á svæðinu. Sérsveitarmenn lögreglunnar eru komnir á svæðið og hafa þeir beitt piparúða og kylfum til að dreifa mannfjöldanum. Rúður hafa verið brotnar í aðaldyrum Alþingishússins.
Lögreglan var að flytja fólk, sem handtekið var við þinghúsið í dag, með fjórum bílum úr bílakjallara þinghússins. Fólkið reyndi að stöðva ferð bílanna með ýmsum ráðum og beittu sérsveitarmenn piparúða og kylfum til að bægja fólkinu frá.
Fólkið við þinghúsið ber enn bumbur, pottlok og annað slagverk sem hefur hljómað nær stanslaust frá því klukkan 13. Fólk kastar eggjum, mjólkurvörum, hveiti og ýmsu öðru í lögreglumenn og þinghúsið.
Enn munu einhverjir þingmenn vera í þinghúsinu en þingfundi var slitið klukkan 16:30.