Mótmælendur á Austurvelli hafa nú tekið sér stöðu við alla innganga Alþingishússins og berja trommur, blása í lúðra og framleiða eins mikinn hávaða og þeir geta. Nokkur hundruð manns hafa safnast saman við þinghúsið til að mótmæla en þing kemur saman á ný eftir fáar mínútur eftir mánaðarlangt jólaleyfi.
Mótmælendur berja glugga þinghússins að utan og snjóboltum hefur verið kastað í þinghúsið. Ekki hefur komið til alvarlegra stympinga milli lögreglu og mótmælenda en öryggisborði sem lögregla hafði sett upp kringum þinghúsið var rifinn niður og mótmælendur hafa þokast nær húsinu.
Tíðindamaður mbl.is á Austurvelli hefur ekki séð þingmenn koma til þinghússins. Ráðherrar þinguðu í Alþingishúsinu fyrir hádegi og voru því komnir í hús áður en mótmælendur komu saman.