Allt að tugur manna hefur verið handtekinn á Austurvelli en þar er nú mikill fjöldi mótmælenda. Laust fyrir klukkan 14 beitti lögregla piparúða á hóp mótmælenda sem safnast hafði saman í Alþingisgarðinum. Lögregla kallaði: gas, gas, gas áður en piparúða var beitt gegn mótmælendum.
Heldur hefur fjölgaði í Alþingisgarðinum og hefur lögregla ítrekað beitt piparúða á mótmælendur. Lögreglan hefur slegið skjaldborg um þinghúsið og stendur varðstöðu hringinn í kringum húsið. Reynir lögregla nú að rýma Alþingisgarðinn en þar er fjöldi fólks sem ber bumbur og hrópar slagorð gegn ríkisstjórninni.
Talið er að hátt á annað þúsund manns hafi verið við þinghúsið þegar mest var. Mótmælendur börðu trommur, þeyttu lúðra og börðu á pottlok og annað sem tiltækt var til að framleiða hávaða og trufla þannig þingstörf. Enn er fjölmennt við þinghúsið.
Þing kom saman að nýju í dag að loknu tæplega mánaðar jólaleyfi og er ekki síður heitt í kolunum inni í þingsal. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kröfðust þess að hlé yrði gert á þingfundum vegna ástandsins. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis varð ekki við því.
Hann sagði í samtali við fréttamann mbl.is að þingið héldi sínu striki. Mótmælin utan við þinghúsið hefðu ekki haft teljandi áhrif á þingstörf og haldið yrði áfram samkvæmt boðaðri dagskrá.