Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagðist nú síðdegis ekki geta neitað því að hann hefði talið sér vera ógnað þegar talsverður mannfjöldi veittist að bíl hans á bílastæði aftan við Stjórnarráðið í dag. Var eggjum kastað í bílinn og fólk barði rúður hans að utan.
Geir sagði, þegar hann kom til þingflokksfundar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag, að mótmæli væru eðlileg í öllum lýðræðisþjóðfélögum en ofbeldi væri ekki það sama og mótmæli. „Fólk þarf að gá að sér í þessu sambandi og ógnandi framkoma við samborgara er ekki við hæfi á Íslandi," sagði Geir.
Þegar fréttamenn spurðu Geir hvort hann hefði talið sér vera ógnað í dag svaraði hann: „Ég get ekki neitað því." Aðspurður hvort öryggisgæsla í kringum hann verði efld í kjölfarið sagði Geir að ekkert væri ákveðið í því efni. „Við eigum ekki því að venjast að geta ekki farið frjáls ferða okkar hér."
Geir sagði að engin áform væru um að boða til alþingiskosninga. Þegar hann var spurður um ummæli Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, í dag um að eðlilegt væri að boða til kosninga í vor, svaraði hann að menn hefðu verið að segja ýmislegt í allt haust og vetur. „Það er ýmislegt hægt að gera ef um það er samkomulag. Ég vil bíða með að úttala mig um slíka hluti þar til við formaður Samfylkingarinnar höfum náð að tala betur saman," sagði Geir.