Mótmælin á Austurvelli eru hafin á nýjan leik, en þar mótmælir fólk af krafti. Einn mótmælenda klifraði upp á svalir Alþingishússins og reisti þar upp tvö mótmælaskilti. Óeirðalögreglumenn standa nú vörð fyrir framan þinghúsið og í Alþingisgarðinum.
Mótmælendur höfðu hljótt í um 45 mínútur á meðan útför stóð yfir í Dómkirkjunni. Um leið og henni lauk hófust lætin á ný. Fólk slær í potta og pönnur og heldur áfram að hrópa: „Vanhæf ríkisstjórn!“
„Þetta hefur farið ágætlega fram, enn sem komið er,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. Hann segir að lögreglan sé vel í stakk búin til að takast á við verkefni dagsins. Enginn hefur verið handtekinn í dag.„Við handtökum engan nema að það sé veruleg ástæða til þess. Og það er engin ástæða til þess,“ segir Geir Jón.
Geir Jón vill ekki gefa upp hversu margir lögreglumenn séu á vettvangi við Austurvöll, en talið er að þeir séu rúmlega 100. Spurður út í það hvort einhverjir lögreglumenn hafi meiðst í átökum í dag segir Geir Jón svo ekki vera.
„Við tökumst á við verkefnin þegar þau koma,“ segir hann að lokum.