„Við þurfum að sýna þjóðinni að Samfylkingunni er best treyst til þess að byggja Ísland upp að nýju,“ sagði Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, við mikið lófatak.
Lúðvík fór yfir stöðuna og talaði um ábyrgð stjórnvalda. Hann minnti á ábyrgð bankamannanna og spurði hvar þeir væru nú. Sagði hann ríkisstjórnina ekki hafa átt kost á öðru en að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins .
Hann sagði ríkisstjórnina hafa átt erfitt verkefni undir höndum að endurreisa bankakerfið. Það hefði verið nauðsynlegt að halda í starfsmenn bankanna þar sem þeir hefðu búið yfir nauðsynlegri þekkingu, en tók fram að framundan væri að auglýsa störfin laus til umsóknar.
Að mati Lúðvíks er nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að endurheimta samband sitt við almenning.
Það væri forgangsefni að koma bankakerfinu sem fyrst af stað aftur og opna landið upp á nýtt.
Lúðvík kallaði eftir lögum sem hefðu það að markmiði að verja heimilin í landinu. Það væri forgangsverkefni Jafnaðarmanna að tryggja það, t.d. með lækkun vaxta og lög um innheimtu og gjaldþrot.
Hann sagði ríkisstjórninni ekki hafa tekist að halda trausti almennings, koma nauðsynlegum hreinsunum í gegn og byggja upp Ísland að nýju í samvinnu við fólkið. Það væri eðlileg krafa að kosningar fari fram á landinu, helst sem fyrst. Nauðsynlegt væri að endurskoða stjórnarskrána.
Lúðvík fór yfir þá kosti sem nú eru í stöðunni, þ.e. að mynda þjóðstjórn, utanþingsstjórn, halda áfram núverandi starfi eða mynda minnihlutastjórn með Vinstri grænum.
Sagði hann fróðlegt að heyra afstöðu fundargesta til þessa. „Við þurfum að sýna þjóðinni að Samfylkingunni er best treyst til þess að byggja Ísland upp að nýju,“ sagði Lúðvík við mikið lófatak.