Þóra Kristín blaðamaður ársins

Önundur Páll Ragnarsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir með verðlaun sín.
Önundur Páll Ragnarsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir með verðlaun sín. mbl.is/Golli

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á mbl.is hlaut Blaðamannaverðlaun ársins sem veitt voru á Hótel Holti rétt í þessu. Verðlaunin hlýtur Þóra fyrir „vandaðar fréttir á mbl.is þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun."

Greinar Ragnars Axelssonar ljósmyndara og Önundar Páls Ragnarssonar blaðamanns í Morgunblaðinu um virkjunarkosti á Íslandi voru valdar besta umfjöllun ársins 2008. „Þar voru dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi," segir í umsögn dómnefndar.

Þá hlaut Sigurjón M. Egilsson á Mannlífi og Bylgjunni verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennsku ársins í fyrra fyrir „vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli," segir í umsögn.

Auk ofantalinna voru Jóhann Hauksson á DV og Sigrún Davíðsdóttir á RÚV tilnefnd í flokknum Blaðamannaverðlaun ársins, Baldur Arnarson á Morgunblaðinu og Brjánn Jónasson á Fréttablaðinu fyrir umfjöllun ársins og Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson á DV og Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, sömuleiðis á DV fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins.

Það er Blaðamannafélag Íslands sem veitir verðlaunin.

Efni sem tilnefnt var frá Morgunblaðinu og mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka