Embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins fær 235,3 milljónir króna til viðbótar samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi í dag.
Í fyrsta lagi er óskað eftir 140 m.kr. hækkun heimildar í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá 27. mars sl. um tillögur um fjárveitingu til sérstaks saksóknara. Miðað er við að starfsmenn verði allt að 16 í föstum stöðugildum, en forsendur fjárlaga gerðu upphaflega ráð fyrir aðeins 5 starfsmönnum.
Af þessum 140 m.kr. eru 50 milljónir eyrnamerktar í útgjöld vegna starfa saksóknarans Evu Joly og starfsmanna á hennar vegum sem aðstoða embættið á árinu. Samtals eru útgjöld vegna þessa liðar áætluð 190 m.kr. en í fjárlögum er þegar gert ráð fyrir 50 m.kr.
Í öðru lagi er í frumvarpinu óskað eftir 80 m.kr. hækkun heimildar um sérstakt rannsóknarverkefni. Markmið verkefnisins er að draga saman heildarlýsingu á atburðaráðs sem var undanfarin bankahrunsins í október sl. byggða á gögnum og upplýsingum frá Rannsóknarnefnd Alþingis, gögnum frá Fjármálaeftirlitinu, skattayfirvöldum o.s.frv. Auk þess er gert ráð fyrir að rekja gögn á bak við bókhaldsfærslur bankanna marga mánuði aftur í tímann þannig að tryggt sé að hugsanlega stórfelld athæfi aðila tengdum bönkunum skili sér til rannsóknar hjá embættinu.
Í þriðja lagi er í frumvarpinu óskað eftir 15,3 m.kr. hækkun á heimild í samræmi ríkisstjórnarsamþykkt fá 19. júní sl. en gert er ráð fyrir að ráðnir verði 3 saksóknarar til embættisins til viðbótar við sérstaka saksóknarann.
Í frumvarpinu kemur fram að til standi að gera skipulagsbreytingar innan embættis sérstaks saksóknara í samræmi við ráðgjöf Evu Joly. Áætluð viðbótargjöld ársins vegna þess nema 15,3 m.kr. en tvöföld sú fjárhæð á heilu rekstrarári.