Segja Alþingi hafna niðurstöðu rannsóknarskýrslu

Þingmenn Hreyfingarinnar
Þingmenn Hreyfingarinnar mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna harðlega að samþykkt Alþingis um fjármál stjórnmálasamtaka. Segja þeir þetta mál skýrt dæmi um að Alþingi ætli ekki að taka tillit til vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis og þeirra niðurstaðna sem fram koma í skýrslu hennar.

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka. Frumvarpið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar, að því er segir í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.

„Nýsamþykkt lög gera hvorki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl á milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis verði gætt við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn munu áfram geta tekið við peningum frá fyrirtækjum. Þá verður flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst verði í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur," segir í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.

Segja þingmennina að málsmeðferðin sem viðhöfð hefur verið við afgreiðslu málsins sé í meira lagi tortryggileg. Ekki fékk málið efnislega umfjöllun í allsherjarnefnd og beiðni um að gestir kæmu fyrir nefndina til að veita málinu umsögn var hafnað þó hefð sé fyrir slíku við afgreiðslu þingmála.

„ Svo virðist sem þingmönnum hafi legið á að afgreiða málið áður en þingmannanefnd sú sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi skilað af sér. Þetta mál er skýrt dæmi um að Alþingi ætlar ekki að taka tillit til vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis og þeirra niðurstaðna sem fram koma í skýrslu hennar," segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert