Rætt við yfir 300 manns

Nefndina skipa þau Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson.
Nefndina skipa þau Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson. mbl.is/Ómar

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur tekið formlegar skýrslur af rúmlega hundrað einstaklingum auk þess að sem nefndin og starfsmenn hennar hafa  rætt við yfir 300 manns á fundum og í viðtölum til að afla nánari skýringa og upplýsinga t.d. um fyrirliggjandi gögn. Enn á eftir að ræða við fleiri en óljóst hversu marga.

Á fundi rannsóknarnefndarinnar í dag kom fram að fresta þurfi skilum á skýrslunni til 1. febrúar. Þó er vonast til að skilin verði fyrr, s.s. þegar Alþingi kemur saman aftur eftir áramót. Þá geti skýrslan farið þegar í umræðu á þingi og fengið þar meðferð.

Þetta hefur tekið lengri tíma og er flóknara en við höfðum væntingar um," sagði Tryggvi Gunnarsson, einn nefndarmanna. „Við stöndum frammi fyrir því, hvort við ætlum að henda frá okkur verki sem stendur ekki undir því verki sem við áttum að vinna eða hvort við getum nýtt viðbótartíma og lokið því í betra formi og komið til skila þeim upplýsingum sem við þurfum að koma frá okkur.“

Gögnin sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum eru umfangsmikil og hjá henni væntanlega saman komnar á einum stað meiri upplýsingar um bankakerfi og bankaviðskipti í einu landi en almennt er, hvað þá að það hafi verið gert í þágu rannsóknar eins og þeirrar sem nefndinni  er ætlað að sinna.

Á fundinum í dag kom fram að í göngunum hafi komið í ljós fleiri, og í ýmsum tilvikum flókin og yfirgripsmikil viðskipti,  sem þörf hefur verið á að skoða nánar þannig að unnt sé að taka afstöðu til þess hvernig eigi að fjalla um þau í skýrslu nefndarinnar og þá eftir atvikum hvort og hvernig þau verði af hálfu nefndarinnar lögð í frekari rannsóknarfarveg t.d. með tilkynningu til saksóknara.

Meðal þess sem var skoðað var að skila bráðabirgðaskýrslu 1. nóvember en það var blásið af, m.a. vegna þess hversu tengd málin eru og sömu leikendur í þeim flestum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert