Skýrslu rannsóknarnefndar seinkar

Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson og Sigríður Benediktsdóttir sitja í rannsóknarnefndinni.
Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson og Sigríður Benediktsdóttir sitja í rannsóknarnefndinni. mbl.is/Ómar

Gagnaöflun rannsóknarnefndar Alþingis hefur reynst tímafrekari og yfirgripsmeiri en reiknað var með í fyrstu og verður ekki unnt að láta Alþingi í té fullburða skýrslu 1. nóvember eins og stefnt var að. Er nú miðað við að skýrslan komi fram eigi síðar en 1. febrúar.

Þetta kom fram á fundi forsætisnefndar Alþingis og formanna þingflokkanna með rannsóknarnefndinni í morgun. Fram kom á blaðamannafundi nefndarinnar nú eftir hádegið, að enn eigi eftir að yfirheyra fólk vegna rannsóknarinnar og einnig er verið að bíða eftir gögnum frá útlöndum. Meðal annars bárust gögn frá fjármálaeftirliti Lúxemborgar í gær.

Nefndarmenn sögðu ljóst, að einhverjum málum yrði vísað þaðan til sérstaks saksóknara. Þá sé einnig ljóst, að skýrsla nefndarinnar, sem væntanlega verður birt í febrúar, verði ekki tæmandi og ýmsum spurningum verði þá enn ósvarað og þörf á frekari rannsókn.

Búið er að ljúka hluta skýrslunnar en hún er nú þegar orðin um 1000 blaðsíður að lengd. Þeir sem fjallað er um í skýrslunni hafa andmælarétt og munu þeir því á næstu vikum fá skýrslukafla til yfirlestrar.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í upphafi þingfundar í dag, að þess megi vænta að á næstunni verði lagt fram frumvarp til breytinga á lögum sem gildi um störf rannsóknarnefndarinnar, þar sem skilafresturinn verði framlengdur. Að auki sé áætlað að bæta við lögin ákvæði sem fjalla um frágang, varðveislu og aðgang að þeim viðamiklu gagnagrunnum sem orðið hafi til í störfum nefndarinnar, svo og um önnur lagatæknileg atriði.

Ásta Ragnheiður sagði, að á vettvangi forsætisnefndar og formanna þingflokkanna hefði verið fjallað um hvernig standa á að þinglegri meðferð á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Samstaða sé um mikilvægi þess að sá farvegur verði markaður fyrir fram áður en skýrslan verður gerð opinber. Því megi vænta þess að á næstu dögum verði lögð fram þingsályktunartillaga sem taki á þessu atriði. Sú tillaga mun ganga út frá því að skipuð verði sérstök þingmannanefnd sem falið verði að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka