Nefndarmönnum í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið verður veitt vernd gegn málshöfðun fyrir innlendum dómstólum vegna þess, sem hugsanlega mun koma fram í skýrslu nefndarinnar.
Þetta er meðal ákvæða í frumvarpi, sem forsætisnefnd Alþingis lagði fram í gærkvöldi. Þar er einnig tekið fram að íslenska ríkið beri ábyrgð á athöfnum nefndarmannanna eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Verði mál höfðað fyrir erlendum dómstóli gegn einstaklingi, sem unnið hefur að rannsókninni, greiðir íslenska ríkið allan kostnað hans við rekstur málsins.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé hlutverk rannsóknarnefndarinnar er að varpa ljósi á ástæður bankahrunsins haustið 2008 og segja til um hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Í þessu skyni hafi nefndin fengið heimild til að afla upplýsinga sem eiga almennt að fara leynt út af reglum um þagnarskyldu. Þá sé nefndinni einnig veitt heimild til að greina frá slíkum upplýsingum í skýrslu sinni, sé það talið nauðsynlegt.
„Ekki er útilokað að þeir sem hlut eiga að máli muni telja að ummæli eða upplýsingar sem birtast í skýrslunni vegi að réttindum þeirra, svo sem friðhelgi einkalífs. Á hinn bóginn er mikilvægt að nefndarmenn sem vinna að gerð skýrslunnar taki afstöðu til þess hvað eigi að birta án þess að þurfa að leiða hugann að því hvort þeir kunni persónulega að þurfa að taka til varna í dómsmálum út af því sem fram kemur í skýrslunni," segir ennfremur.
Nú er gert ráð fyrir að rannsóknarnefndin skili skýrslu sinni fyrir lok janúar. Samkvæmt frumvarpi forsætisnefndar kýs Alþingi níu þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrsluna og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar.