Formenn stjórnmálaflokkanna funduðu í Stjórnarráðinu eftir hádegið í dag. Að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins kom fátt nýtt fram um stöðu Icesave-málsins á fundinum, hvorki um samskipti íslenskra ráðamanna við stjórnmálamenn í Bretlandi og Hollandi, né um það hvaða ríkisstjórn hefur verið fengin til milligöngu í málinu. Stjórnarandstaðan fær enn ekki að vita hvers lensk sú ríkisstjórn er.
„Þetta er bara endalaus bið og í raun ekkert hefur breyst frá öðrum fundinum þegar við náðum saman um hvernig yrði staðið að viðræðum ef til þeirra kæmi. Á hverjum einasta fundi er vonast til þess að fyrir næsta fund verði komnar einhverjar meiri upplýsingar að utan. En svo koma þær aldrei,“ segir Sigmundur Davíð.
„Þá segi ég alltaf: Hvernig dettur mönnum í hug að Bretar og Hollendingar fari að sýna einhvern vilja til að semja um breytta niðurstöðu þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eru alltaf að segja að það eigi bara að halda við gildandi samning og hann sé það eina rétta?“
Að sögn Sigmundar Davíðs var á fundinum aðallega rætt um dagsetningu á þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin og birtingu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem mun að óbreyttu bera upp með skömmu millibili.
Voru fulltrúar ríkisstjórnarinnar á þeirri skoðun að skýrslan þyrfti helst að birtast fyrir kosninguna, en jafnframt að ef hún birtist eftir kosninguna væri líka slæmt að skammur tími liði á milli.
Aðspurður segir Sigmundur Davíð að stjórnarandstöðu flokkarnir hafi ekki sett sig á móti því að skýrslan yrði birt eftir Icesave-kosningarnar.
„Nei við svöruðum því til að það hefði margoft komið fram hjá stjórninni í þinginu að hún teldi að allar upplýsingar væru fram komnar sem þyrfti um þetta mál og eins hefði þá legið fyrir að það væri stutt í þessa skýrslu, en menn samt ekki til í að bíða eftir henni. Núna sé almenningur að taka afstöðu til sama máls og Alþingi tók afstöðu til. Þannig að það væri undarlegt núna ef þessi skýrsla væri orðin eitthvað ómissandi gagn í því máli,“ segir hann.
Spurður hvort stjórnarandstaðan sé ekki að halda því fram, þvert á móti, að skýrslan geti verið mikilvægt skjal í Icesave-málinu svarar Sigmundur því neitandi.