Sölvi Tryggvason segir á bloggvef sínum hafa það eftir afar traustum heimildum að rannsóknarnefnd Alþingis hafi undir höndum upptöku af samtali bankastjóra Landsbankans, Sigurjóns Árnasonar og Halldórs J. Kristjánssonar við Hector Sants, yfirmann fjármálaeftirlits Bretlands, þar sem hann tekur vel í þá hugmynd að Icesave verði tekið yfir til Bretlands gegn því að lagðar verði fram 200 milljónir punda.
„Þessi upphæð er í krónum talið um það bil 40 milljarðar. Há upphæð vissulega, en aðeins brot af þeirri upphæð sem nú er rædd vegna Icesave.
Símtalið var tekið upp og nú hefur rannsóknarnefnd Alþingis upptökuna undir höndum.
Með þessu móti hefði verið hægt að afgreiða Icesave fyrir lítinn hluta af þeirri upphæð sem nú er rætt um að málið muni kosta okkur. Að sjálfsögðu hefði ýmislegt fleira þurft að ganga upp til þess að svo hefði mátt verða. En tækifærið var gott og það var til staðar.
Síðla kvölds á sunnudeginum eftir símtalið örlagaríka var allt sett í stopp og ekkert meira gerðist. Einu samskiptin sem áttu sér stað á milli yfirmanna Landsbankans og stjórnvalda voru símtöl Landsbankamanna við aðstoðarmenn ráðherra þarna um nóttina. Mánudagurinn rann upp og eftirleikinn þekkja allir," skrifar Sölvi á vef sinn.
Hér er hægt að lesa pistil Sölva á Pressunni