Munu tjá sig sem minnst

Atli Gíslason segir mikið verk framundan hjá þingmannanefndinni.
Atli Gíslason segir mikið verk framundan hjá þingmannanefndinni. Árni Sæberg

Þingmannanefndin sem fjalla um um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur fundað reglulega frá því í janúar til að undirbúa sig undir verkefnið framundan. En skýrsla rannsóknarnefndarinnar verður gerð opinber á mánudagsmorgun.


„Það hafa verið haldnir 10-12 fundir til að fara yfir reglur og sérfræðingar verið kallaðir til,“ segir Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar. Sérfræðingar hafi t.a.m. verið fengnir til að skýra út lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð. Nefndin hafi með þessu reynt að gera sér mynd af verkefninu framundan án þess að hafa séð af skýrslunni.


Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, fundar  forsætisnefnd og formenn þingflokkanna um skýrslu rannsóknarefndarinnar klukkan níu á mánudagsmorgun. Prentað eintak skýrslunnar verður síðan afhent forseta Alþingis formlega klukkan tíu með athöfn í efri deildar salnum og kl. 10.20 mun þingforseti opna fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis (http://rna.althingi.is). Að því loknu verður efnt til blaðamannafundar kl. 10.30 í Iðnó þar sem rannsóknarnefndin og siðferðisnefndin munu sitja fyrir svörum.


Þingmannanefndin mun hins vegar ekki funda með rannsóknarnefndinni fyrr en á þriðjudagsmorgun. „Þá hefst  úrvinnslan og þetta er gríðarleg vinna sem þar er framundan,“ segir Atli og kveður nefndina munu tjá sig sem allra minnst um málið. „Okkar hlutverk er að meta skýrsluna og mæla fyrir um hugsanlegar lagaúrbætur. Síðan þurfum við að skoða hvort fyrir hendi sé hugsanleg ráðherraábyrgð og í þriðja lagi þurfum við að beina sjónum okkar að siðferði skýrslunnar, horfa inn á við og hvort alþingi sem slíkt geti dregið lærdóm af málinu.“


Þingmannanefndinni hafi verið sett tímatakmörk sem miðast við þetta þing og þarf að skila sínum ályktunum í síðasta lagi í september. „Þessu kann þó að verða breytt vegna þess að við höfum náttúrlega misst rúma tvo mánuði miðað við þann tíma sem skýrslan átti að liggja fyrir,“ segir Atli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert