Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna verður gefin út eftir mikla bið á morgun og ríkir mikil eftirvænting um hana. Skýrslunni verða gerð ítarleg skil á mbl.is og í Morgunblaðinu á þriðjudag og næstu daga.
Fyrsta eintak skýrslunnar verður afhent forseta Alþingis í Alþingishúsinu klukkan 10 á mánudagsmorgun að viðstöddum formönnum þingflokka og fjölmiðlum. Strax að því loknu, eða klukkan 10.20, verður opnað fyrir aðgang almennings að skýrslunni á vef Alþingis, á slóðinni http://rna.althingi.is.
Vefútgáfunni er ætlað að vera aðalútgáfa skýrslunnar, enda birtist þar efni sem ekki er í hinni prentuðu útgáfu, m.a. bréfaskipti nefndarinnar og þeirra tólf einstaklinga sem veittur var andmælaréttur um atriði sem koma fram í skýrslunni. Þeir sem ekki vilja lesa skýrsluna af tölvuskjá geta keypt hana í bókabúðum.
Þá hefur biskup Íslands hvatt söfnuði til þess að kaupa eintak af skýrslunni sem fái að liggja frammi í safnaðarheimilum.
Fréttamannafundur rannsóknarnefndarinnar hefst klukkan 10.30 á morgun í Iðnó og verður hann sýndur beint á mbl.is auk þess sem ítarleg umfjöllun verður um efni skýrslunnar á mbl.is allan daginn. Klukkan 15.00 munu svo formenn þingflokka flytja erindi um skýrsluna á Alþingi og verður þingfundi bæði útvarpað og sjónvarpað.
Viðamikil umfjöllun um skýrsluna verður í Morgunblaðinu á þriðjudag