„Skýrslan er farin að slá út aðrar metsöluglæpasögur í forsölu," segir Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs hjá Eymundsson, en vegna mikilla viðbragða almennings við að panta sér rannsóknarskýrslu Alþingis hefur Eymundsson orðið að stöðva forsölu í bili.
Eymundsson byrjaði sl. föstudag að gefa fólki kost á að panta skýrsluna í bókabúðum og á vef fyrirtækisins. Ingþór segir Eymundsson hafa náð að tryggja sér nærri 200 eintök af skýrslunni en þau séu nú þegar pöntuð og langur biðlisti myndast.
Að sögn Ingþórs getur Eymundsson ekki tryggt fleiri eintök í bili, vegna óvissu um afhendingu og magn sem fer í dreifingu á morgun, eftir að skýrslan hefur verið birt.
Við pöntun á skýrslunni í forsölu bauðst starfsfólk Eymundsson til að aka skýrslunni heim til fólks, því að kostnaðarlausu, eins fljótt og auðið verður á morgun.
Ingþór segir þetta miklu sterkari viðbrögð en þeir hafi átt von á, og mun meiri viðbrögð en vinsælar glæpasögur hafa fengið í fyrstu, eins og frá Arnaldi Indriðasyni og fleiri höfundum.