Að mati rannsóknarnefndar Alþingis fullnægði fyrirkomulag áhættustýringar rekstrarfélaga bankanna sem sáu um peningamarkaðssjóði ekki þeim faglegu kröfum sem gera verði til þess konar starfsemi fjármálafyrirtækja.
Þá segir nefndin að ljóst sé að sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum, bönkunum, hafi verulega ábótavant.
Starfsmenn rekstrarfélaganna hafi haft mikil samskipti við móðurfélagið og starfsmenn þess, auk þess sem húsnæði hafi verið sameiginlegt.
Þá voru launakerfi, launagreiðslur og bónusar tengdir móðurfélaginu að ýmsu leyti, sérstaklega í tilviki Landsvaka og Rekstrarfélags Kaupþings banka. Launafyrirkomulagið var meðal annars til þess fallið að starfsmenn rekstrarfélaganna tækju fremur mið af hagsmunum móðurfélagsins en hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
Þá var skipan stjórna rekstrarfélaganna til þess fallin að draga úr sjálfstæði þeirra, „enda voru stjórnirnar ýmist að meirihluta til eða eða alfarið skipaðar starfsmönnum bankanna.“
Kynning villandi
Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var kynning á rekstrarfélögunum
villandi. „Látið var í veðri vaka að félögin væru hluti af viðkomandi móðurfélagi, bankanum, nánast eins og sérstök deild innan hans. Af því sem að framan er rakið má raunar álykta að það hafi verið í samræmi við þá sýn sem starfsmenn höfðu af stöðu félaganna. Það breytir þó ekki því að slíkt fyrirkomulag stenst ekki kröfur laga.“
Þá segir nefndin: „Af þeim tölvubréfum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað og sendir voru í tengslum við kynningu á peningamarkaðssjóðum allra bankanna má ráða að sjóðirnir hafi ítrekað verið kynntir sem áhættulausir eða áhættulitlir.
Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var þessi kynningarstarfsemi ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í 51. gr. laga nr. 30/2003 og gerð er grein fyrir hér að framan. Fullyrðingar um að fjárfestingarsjóðir séu áhættulitlir eða áhættulausir standast vitaskuld ekki.“