Rannsóknarnefnd Alþingis telur, að viðskiptaráðherra hafi borið að hafa frumkvæði að því, annað hvort með eigin aðgerðum eða með tillögu um það til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
Þrátt fyrir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta væri sjálfseignarstofnun féll sjóðurinn og innstæðutryggingar undir málefnasvið viðskiptaráðherra. Meðal þess sem þurfti að taka afstöðu til við fjárhagslega greiningu á áhættu vegna fjármálaáfalls var hvernig tryggingarsjóðurinn gæti staðið við hina lögbundnu lágmarksgreiðsluskyldu sína og hvort og þá hver ætti að vera aðkoma íslenska ríkisins að því að gera sjóðnum það kleift.
Það er mat rannsóknarnefndarinnar að Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra á árinu 2008, hafi fyrir sitt leyti haft fullt tilefni til þess annars vegar frá fyrstu mánuðum ársins að fylgja því eftir og fullvissa sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans úr útibúi bankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og hins vegar a.m.k. frá sumri 2008 að leita leiða í krafti embættis síns til þess að stuðla að framgangi sama máls með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
Þrátt fyrir þann fund sem Björgvin hélt með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008 var engu að síður nauðsyn á því að hann gætti þess að fylgja málinu frekar eftir í framhaldi af þeim fundi. Slíkrar frekari viðleitni hans sér ekki stað í gögnum rannsóknarnefndarinnar.