Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Pressunar, hefur látið af störfum tímabundið í kjölfar birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Björn Ingi er nefndur í skýrslunni sem annar tveggja fjölmiðlamanna sem fengu há lán hjá bönkunum. Í yfirlýsingu sem Björn Ingi birtir á Pressunni kemur fram að Steingrímur Sævarr Ólafsson fréttastjóri taki við starfi ritstjóra um ótilgreindan tíma.
„Nú þegar liggur fyrir að Rannsóknarnefnd Alþingis fjallar sérstaklega um viðskipti eignarhaldsfélags okkar hjóna við gamla Kaupþing og vill að yfirvöld skoði þau nánar, tel ég rétt að taka mér tímabundið leyfi sem ritstjóri Pressunnar meðan ég vinn að því að hreinsa nafn mitt af áburði um að hafa þegið það sem kalla mætti óeðlilega fyrirgreiðslu.
Steingrímur Sævarr Ólafsson fréttastjóri tekur því við starfi ritstjóri um ótilgreindan tíma.
Hið rétta í málinu er nefnilega auðvitað, að hér er ekkert ólöglegt á ferðinni. Ég hef aldrei þegið far í einkaþotu af bönkum eða öðrum stórfyrirtækjum, aldrei þegið boð í laxveiði frá fyrirtækjum, á enga erlenda reikninga og hef aldrei tekið stöðu gegn krónunni og þótt fyrirtæki í eigu mín og konu minnar, sem er löggiltur verðbréfamiðlari og sérfræðingur á þessu sviði, hafi átt í hlutabréfaviðskiptum og tekið lán í þeim tilgangi, eins og þúsundir annarra sambærilegra félaga, þýðir það ekki að neitt óeðlilegt hafi verið á ferðinni.
Ég hef aldrei fengið krónu afskrifaða í íslensku bankakerfi og stend ekki vel fjárhagslega í dag, frekar en svo fjölmargir aðrir landsmenn. Ef ég hefði notið sérstakrar velvildar bankanna og haft sérstakar innherjaupplýsingar, er varla líklegt að félag í minni eigu hefði átt hlutabréf í bankahruninu og jafnvel keypt slíkt bréf. Við hjónin töpuðum öllum okkar sparnaði og miklu meira en það í hruninu.
Varla bendir það til þess að ég hafi vitað að bankarnir væru á leið í þrot?
Ég er að þessu sögðu vitaskuld jafn sannfærður og fyrr um að nafn mitt verði hreinsað og mun vinna að því ásamt mínum lögmanni," segir meðal annars í yfirlýsingu Björns Inga Hrafnssonar.