Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir dýrkeypta samfélagstilraun þar sem græðgin var hreyfiaflið, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Hún sagði misgjörðir einstaklinga í fjármálakerfinu verða sendar áfram til sérstaks saksóknara.
Jóhanna þakkaði nefndinni sín störf og sagði skýrsluna mikilvæga við endurreisnina. Nefndarmenn hafi fengið einstæða sýn yfir stjórnkerfið og fjármálaheimin. Vinnan sé til marks um það að Ísland taki á vandamálum sínum. Margt hafi þegar verið gert af ríkisstjórninni sem fundið er að í skýrslunni og fleira verði að gert.
Jóhanna sagði fólk fullt réttmætrar reiði enda flestir orðið fyrir áfalli og tjóni. Samfylkingin hafi hins vegar axlað ábyrgð sína og sótt umboð sitt til þjóðarinnar að nýju til að standa að endurreisnarstarfinu.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar mun veita Alþingi fótfestu, til að koma í veg fyrir að slík sama áhætta verði tekin á ný með þjóðarbúið. Hún sé um leið áskorun um heiðarlegt uppgjör og sagðist Jóhanna sannfærð um að þingið og ríkisstjórn vilji af einlægni stuðla að uppgjöri og læra af því sem miður fór.
Hún sagið pólitísk afskipti af einkavæðingu bankanna óheillaspor og ljóst væri að eigendur þeirra hugsuðu aðeins um sinn hag og krosseignatengsl, sérstaklega þegar blása fór á móti. Markvisst hafi verið unnið að breytingum á lagaumhverfinu frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, og stór og mikilvæg skref tekin. Hins vegar muni taka tíma að melta efni skýrslunnar og nefnd sem fer í saumana á henni mun skila frekari tillögum til breytingar. Svigrúm sé til að ráðast í þær strax í vor.
Að auki sagði Jóhanna virðingavert af Björgvini G. Sigurðssyni að taka sína ákvörðun um að stíga til hliðar sem þingflokksformaður.