Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sagði 3. mars 2008 í samtali við bresku sjónvarpsstöðina Channel 4, að íslenska ríkið hafi efni á að tryggja innstæður allra bankanna. Einnig að hann teldi skuldatryggingarálag á íslensku bankana of hátt.
Frá þessu er greint í 18. kafla 6. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur fram að í kjölfar lausafjárvanda breska bankans Northern Rock haustið 2007 hafi breskir fjölmiðlar farið að beina sjónum sínum að öðrum bönkum sem áhættusamt kynni að vera að treysta fyrir sparnaði. Neikvæð umfjöllun birtist um íslensku bankana, sérstaklega
varðandi hækkandi skuldatryggingarálag þeirra.
Í mars 2008 flutti sjónvarpsstöðin Channel 4 í Bretlandi þátt um öryggi innstæðna þar í landi. Í þættinum ræddi þáttastjórnandi við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Davíð sagði skuldatryggingarálag á íslensku bankana of hátt. Sagði hann engan banka geta staðist til lengdar skuldatryggingarálag sem nemi 500 til 600 punktum.
Síðar í viðtalinu hafði fréttamaður eftir Davíð að íslenska ríkið hefði efni á að tryggja innstæður allra bankanna. Í lauslegri þýðingu sagði Davíð orðrétt: „Bankarnir eru svo traustir að svona laga er ólíklegt til að gerast nokkru sinni. Og ef eitthvað þvíumlíkt gerist yrði ekki um að ræða alla upphæðina, því þannig er það aldrei, en jafnvel þó yrði þetta ekki of stór biti fyrir Ísland, sem er skuldlaust, til að gleypa, ef það myndi vilja gleypa hann.“
(e. „These banks are so sound that nothing like that is likely to ever happen. And if something would happen we would never be talking about the whole amount, because it is never like that, but even so Icelandic economy, the state being debtless, this would not be too much for the state to swallow, if it would like to swallow it“.)