Rannsóknarnefnd Alþingis telur tilefni til þess að rannsakað verði hvort
endurskoðendur þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu haustið 2008 og í upphafi
árs 2009 hafi brotið starfsskyldur sínar við endurskoðun þessara fjármálafyrirtækja þannig að refsingu varði.
Rannsóknarnefndin segir í skýrslu sinni, að skort hafi á að endurskoðendur
sinntu nægilega skyldum sínum við endurskoðun reikningsskila fjármálafyrirtækjanna árið 2007 og við hálfsársuppgjör 2008, að því er varðar rannsókn þeirra og mat á virði útlána til stærstu viðskiptaaðila fyrirtækjanna, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu fjármálafyrirtækja til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér.
Áréttar nefndin, að aðstæður höfðu á þessum tíma þróast með þeim hætti að tilefni var til þess að gefa þessum atriðum sérstakan gaum.
Þá virðist athuganir endurskoðenda að öðru leyti ekki hafa verið nægilega
markvissar.
Nefnt er dæmi, að rekstrarkostnaður útibús Kaupþings í Lundúnum, sem virðist aðallega hafa verið starfrækt utan um stjórnarformanninn, Sigurð Einarsson, virðist hvorki hafa verið undir eftirliti innri eða ytri endurskoðenda Kaupþings banka.