Engin gögn um 3,8 milljarða fjármögnun

Landsbankinn.
Landsbankinn.

Hlutafélagið Imon, sem er í eigu Magnúsar Ármanns, fékk lánsheimild hjá Landsbankanum í lok september 2008 að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Alls keypti Imon bréf í Landsbankanum í tveimur viðskiptum af bankanum skömmu áður en bankinn hrundi.

Hinn 30. september 2008 keypti Imon  hlutabréf í Landsbankanum fyrir 5,2 milljarða  og þann 3. október 2008 hlutafé í sama banka fyrir 3,8 milljarða eða samtals 9 milljarða kr. að markaðsvirði.

Þann 8. október 2008 fékk Imon lán í Landsbankanum að fjárhæð 5,2 milljarðar. Lánið var kúlulán til 20 mánaða. Ofangreind lánveiting var tekin á óformlegum fundi sem haldinn var þann 8. október 2008 og hana tóku Sigurjón Þ. Árnason, Halldór J. Kristjánsson og Sigríður Elín Sigfúsdóttir.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að þrátt fyrir eftirgrennslan  hefur Landsbankanum ekki tekist að hafa uppi á neinum gögnum sem sýna  hvernig seinni hlutabréfakaup Imons að fjárhæð 3,8 milljarðar króna, voru fjármögnuð.

Helsta eign Imons í árslok 2007 voru eignarhlutir í Byr sparisjóði sem bókfærðir eru á 3,8 milljarða. Helstu skuldir voru vegna verðbréfaviðskipta og námu þær 4,1 milljarði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert