Forsvarsmönnum orkufyrirtækja boðið í laxveiðar

Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Einar Falur

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er greint frá því að sumarið 2007 hafi Glitnir boðið ýmsum forsvarsmönnum orkufyrirtækja í laxveiðar, m.a. þeim Friðriki Sophussyni, Birni Inga Hrafnssyni, Guðmundi Þóroddssyni, Ásgeiri Margeirssyni og Júlíusi Jónassyni.

„Friðriki Sophussyni, forstjóra Landsvirkjunar, var boðið í Langá 6.–7. júní árið 2007. Þá bauð bankinn Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa, í Laxá í Leirársveit 10.–11. júlí 2007, Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, í Langá 4.–5. júní 2007 og Ásgeiri Margeirssyni í Langá 5.–6. júní, en þetta er þremur mánuðum fyrir eigenda- og stjórnarfund Orkuveitu Reykjavíkur þar sem tekin var ákvörðun um að veita Geysir Green Energy eignir og réttindi. Þá bauð Glitnir Júlíusi Jónassyni frá Hitaveitu Suðurnesja í Langá 7.–8. júlí 2007. Þetta eru aðeins dæmi um ferðir sem hægt er að sjáí gögnum bankanna,“ segir í skýrslunni þar sem fjallað er um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna.

Þá segir að mun meira fjármagn hafi verið veitt í stjórnmálin en áður hafði þekkst.

„[Þ]etta eru ótrúlegar fjárhæðir sem tiltölulega fáir aðilar eru að greiða til lykilmanna í öllum stjórnmálaflokkunum, tiltölulega fáir aðilar. Og mjög háar upphæðir, upphæðir sem að ég held að hafi ekkert þekkst áður, og þetta bara sýnir þetta andrúm sem var, það fannst engum þetta orðið lengur skrýtið. Mönnum fannst allt í lagi að fá 2, 3, 4 milljónir, einstaklingur, í prófkjörframlög frá einum stórum aðila. Ég meina, þetta, mönnum fannst þetta ekkert, þetta voru heiðarlegir og góðir menn, þeim fannst þetta ekkert skrýtið. Mér finnst þetta stórkostlega undarlegt, kannski orðinn gamaldags í þessu, en stórkostlega undarlegt,“ er haft eftir viðmælendum í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert