Framhaldið í höndum setts ríkissaksóknara

Sigríður Benediktsdóttir á blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar.
Sigríður Benediktsdóttir á blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Tólf einstaklingum var gefið tækifæri til að koma að skriflegum athugasemdum við rannsóknarnefndarinnar. Sjö þeirra voru nafngreindir á fundinum en að sögn Tryggva Gunnarssonar, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis, eru hinir fimm eru: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra og fjórir ráðuneytisstjórar. 

Páll Hreinsson segir að einhverjir þeirra hafi ekki brotið af sér en sjö hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi. Tryggvi ítrekaði það að það hafi ekki verið hlutverk nefndarinnar að sækja fólk til saka heldur sé það í höndum annarra. Settur ríkissaksóknari og sérstakur saksóknari hafi fengið ýmis gögn í hendur frá nefndinni og þeirra embætti muni fara yfir þau gögn. Mörg þeirra hafi þegar verið komin til þeirra. Það er settur ríkissaksóknari sem sér um að ákvarða um framhaldið. Að sögn Páls hitti nefndin ríkissaksóknara tvisvar til þrisvar á meðan rannsókn stóð og ítrekaði að framhaldið sé í höndum ríkissaksóknara. Það er hans að ákveða hvort og hverjir verði ákærðir.

 Sigríður Benediktsdóttir var spurð á því hvort hægt væri að lýsa því sem gerðist á þessum tíma sem var til rannsóknar hvort um bankarán hafi verið að ræða þá segir hún ljóst að eigendur hafi farið full frjálslega um eignir bankanna án þess þó að hún vilji taka svo sterkt til orða að um bankarán hafi verið að ræða.  

Meginvanræksla Seðlabankans varðandi Glitni var að ekki var rannsakað nægjanlega hver staðan var, að sögn Páls. Seðlabankinn hafði ekki yfirsýn yfir vandamál Glitnis og gat því ekki vitað hvort yfirtaka á 75% hlut í Glitni hafi verið rétt.

Rannsóknarnefndin mun ekki svara þeirri spurningu hvort kalla eigi Landsdóm saman. Það sé hlutverk Alþingis.

Sigríður segir að ljóst að flestir hafi reynt að hámarka hagnað sinn.  Hér hafi allt of mikið verið einblínt á rangar kennitölur í reikningum bankanna. Of mikið var einblínt á eigið fé bankanna sem reyndist síðar vera mun minna en áður var talið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert