Á árunum 2006-2008 námu arðgreiðslur til gervimanns í útlöndum 5,5 milljörðum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að „gervimaður útlönd" séu óþekktir eigendur erlendis.
Í skýrslunni segir að gervimaður í útlöndum hafi, samkvæmt opinberum gögnum, ekki þegið neinar arðgreiðslur fyrr en 2006. Það ár voru skil á hlutafjármiðum gerð að fullu rafræn og því ekki lengur hægt að skila inn auðum kennitölum eða kennitölum sem eru ekki til á hlutafjármiðum.
Stærsti hlutur arðgreiðslunnar til Gervimanns útlanda er vegna eignar hans í Kaupþingi, en meðal fyrirtækja sem einnig greiða arðs til gervimanns í útlöndum eru Ístak, Milestone, Straumur, Leikhúsmógúllinn, Danfoss, Hamiðjan og B&L. Listi yfir arðgreiðslurnar er birtur á bls. 79 í níunda bindi skýrslunnar.
Í skýrslunni er fjallað almennt um arðgreiðslur íslenskra félaga. Fram kemur að af félögunum sem greiddu út stærstan arð á árunum 2007 og 2008 eru mörg farin í þrot eða hafa gengið í gegnum nauðasamninga eða eru í nauðasamningum.