Þegar mest lét skuldaði Baugur Group og tengd félög um 975 milljarða króna hjá móðurfélögum stóru bankanna þriggja, Kaupþingi, Landsbanka og Glitni. Um 53% alls eiginfjárgrunns bankanna þriggja var undir í lánveitingum til Baugs og tendgra félaga.
Lán til Baugs og tengdra félaga námu 11% af öllum útlánum móðurfélaga bankanna þriggja, og að sama skapi námu lán til þessa hóps ríflega helmingi alls eiginfjárgrunns.
Einnig kemur fram í skýrslunni að um 85% af eiginfjárgrunni Glitnis var undir við lánveitingar til sama fyrirtækjahóps, þegar mest lét í mars 2008.
Fram kemur í skýrslunni að Baugur Group og tengd félög hafi verið umfangsmesti viðskiptavinur íslensku bankanna. Rannsóknarnefndin telur að rekstur bankanna hafi einkennst af því að hámarka hag stærstu hluthafanna sinn á kostnað hinna smærri, og nefnir Baug sem skýrasta dæmið í því samhengi.