Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Icelandair, hótaði Kaupþingi með lögreglurannsókn vegna fjármuna sem hurfu út af reikningi félagsins í Kaupþingi í Lúxemborg. Eftir að þessa hótun skiluðu fjármunirnir sér inn á reikninginn.
Hannes Smárason, stærsti eigandi Icelandair, er talinn bera ábyrgð á því peningarnir voru færðir af reikningi félagsins.
Þessar upplýsingar komu í skýrslu sem Inga Jóna Þórðardóttir, fyrrverandi stjórnarmaður Icelandair, gaf hjá rannsóknarnefnd Alþingis en Inga Jóna sagði af sér í stjórninni eftir að þetta mál kom upp.
Hún segist hafa búið sig undir að svara spurningum á aðalfundi FL Group um málið, en enginn hafi spurt. Hún ræddi við nokkra af eigendum félagsins um þetta mál og hvort ekki væri rétt að fá þessa hluti á hreint, en þeir hefðu ekki verið tilbúnir að taka slaginn við stjórnarformanninn.
„Vel má vera að stjórnarmenn hafi talið sig lausa allra mála með því að segja af sér. Hafi þeir hins vegar talið félaginu glannalega stjórnað og að auki haft grun um fjármálamisferli bar þeim siðferðileg skylda til að upplýsa opinberlega um stöðu mála. Sama gildir um forstjórann sem hvarf stuttu síðar úr starfi hljóðalaust. Um var að ræða fyrirtæki á markaði sem að auki gegndi mikilvægu samfélagslegu hlutverki – ábyrgð þeirra var ekki aðeins gagnvart stærstu hluthöfunum,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Styrmir Gunnarsson, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði við rannsóknarnefndina að hann hefði fengið upplýsingar um málið og skrifuð hafi verið ítarleg fréttaskýring um það. Hann óttaðist hins vegar að birting þess gæti kallað yfir blaðið skaðabótamál því í fréttinni voru miklar ásakanir.
„En til þess að birta þetta þurftum við eina staðfestingu. Við þurftum staðfestingu á því að þetta hefði gerst nákvæmlega svona. Ég vildi ekki birta þetta nema við hefðum [hana] frá einhverjum aðila sem þekkti málið innan Flugleiða. Svo ég talaði við unga stúlku sem þekkti vel til mála og leitaði eftir því að fá staðfestingu hennar og hún tók því mjög vel. Svo einn góðan veðurdag þegar ég ætlaði að fá þetta endanlegt og ganga frá þessu þá var tilkynnt að hún hefði látið af störfum og hefði fengið laun í fimm ár. Svo sagði hún mér að hún gæti því miður ekki staðfest þetta.“
Að mati Styrmis segir þetta mikla sögu um það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig.