Hrein mistök

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði við skýrslutöku hjá Rannsóknarnefndinni að hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs og lækkun vaxta hjá sjóðnum árið 2004 hafi verið „hrein mistök“ á þeim tímapunkti. Ljóst hafi verið að Kárahnjúkavirkjun myndi valda þensluáhrifum. Að fara í aðra hluti  „við hliðina á“ hafi ekki verið heppilegt og illa tímasett. Um þetta er fjallað í kaflanum Húsnæðismál í fyrsta bindi skýrslunnar (bls. 117-126)

 Orðrétt er haft eftir Geir: „Auðvitað var ljóst að [Kárahnjúkavirkjun] mundi hafa þensluáhrif, sérstaklega fyrir austan, og það sem ég vitna til í minni landsfundarræðu, sem var vitnað í hérna áðan, er það að ef það er hægt að saka okkur um einhver mistök í hagstjórninni varðandi þetta, þá er það ekki það að hafa ráðist í þessa virkjun því hún var mjög nauðsynleg og á eftir að vera hér mikil stoð í framtíðinni í efnahagslífi,heldur það að hafa farið í aðra hluti við hliðina á sem ekki voru heppilegir og ekki voru rétt tímasettir, hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs, lækkun vaxta hjá Íbúðalánasjóði, þetta voru hrein mistök og því miður verður maður að viðurkenna hreinskilnislega að um þetta hafði maður náttúrlega miklar efasemdir, en um þetta var samið við ríkisstjórnarmyndunina 2003 og ef það hefði ekki verið gert þá hefði sú ríkisstjórn ekki verið mynduð. Þetta er nú bara svona er hluti af veruleika stjórnmálamannsins að stundum þarf að taka tillit til þessa atriðis.“

Skýrsluhöfundar segja að af þessu megi álykta að ákvörðunin um að rýmka kröfur sem gerðar eru fyrir lánveitingum Íbúðalánasjóðs á einhverjum mestu þenslutímum Íslandssögunnar hafi verið tekin við stjórnarmyndun 2003, þrátt fyrir þá skoðun fjármálaráðherra að það væri verulega varasamt. Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.

Í skýrslunni segir að eftir að útlánareglur Íbúðalánasjóðs voru rýmkaðar brugðust viðskiptabankarnir við með því að bjóða íbúðalán á samkeppnishæfum kjörum við sjóðinn.

Íbúðalánasjóður beitti sér þá af hörku í samkeppni við bankana. Sjóðurinn átti þannig þátt í því að keyra niður raunvexti á lánum til heimilanna á þenslutímum

þegar Seðlabankinn var að reyna að auka aðhaldið með vaxtahækkunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert