Rannsóknarnefnd Alþingis ræður það af tölvupósti, sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi starfsmanni Glitnis 12. september 2008, að Jón Ásgeir hafi talið að vegna tengsla fasteignafélagsins Landic Property við stærstu eigendur Glitnis ætti félagið að fá annars konar meðferð en aðrir skuldarar bankans.
Magnús Arnar Arngrímsson sendi umræddan dag tölvubréf til Skarphéðins Berg Steinarssonar, þáverandi forstjóra Landic Property, um að bréf myndi berast frá Glitni varðandi aðgerðir bankans til að tryggja aukin áhrif í félaginu til að treysta stöðu bankans sem stórs lánveitanda félagsins.
Svar barst frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og í því segir meðal annars:
„Sæll Magnús. Sem aðaleigandi Stoða sem er stæsti [sic] hluthafi í Glitni langar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hagsmunum bankans.“
Jafnframt spyr Jón:
„Gera stjórnendur sér grein fyrir því að Stoðir aðaleigandi Landic er jafnframt með leyfi FME að fara með ráðandi eignarhlut í Glitni hvernig heldur að þetta bréf líti út frá því sjónarmiði?“
Ekki er annað að sjá en að Jón Ásgeir hafi talið að vegna tengsla Landic við stærstu eigendur Glitnis ætti félagið að fá annars konar meðferð en aðrir skuldarar bankans," segir síðan í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.