Kallar á allsherjar naflaskoðun

Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur
Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur Skapti Hallgrímsson

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, segir að skýrsla rannsóknarnefndar Aalþingis kalli á allsherjar naflaskoðun.

„Við fyrstu sýn virðist mér þetta vera mjög merkileg skýrsla,“ segir Birgir. Hann bendir á að tekið hafi verið á málum, framsetningin sé skýr og ekki sé um hvítþvott að ræða heldur sé bent á meinsemdir með öflugum rökum í viðskiptalífinu, stjórnsýslunni, stjórnmálunum og embættismannakerfinu.

Birgir segir að ástandið fyrir hrunið komi sér einna helst á óvart. Enginn hafi virst taka ábyrgð á einu eða neinu og hver bent á annan. Vegna þess að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald virðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra á síðustu metrunum fyrir hrun, vera laus allra mála í skýrslunni. Hún sé ekki sögð hafa sýnt af sér vanrækslu heldur Björgvin Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, sem hafi samt oft ekki verið hafður með í ráðum. „Það kemur svolítið á óvart hvað þessi formlega krafa gengur langt,“ segir hann, „en ég gagnrýni það ekki.“

Umræða um skýrsluna hefst á Alþingi á eftir. Birgir segir að þá komi í ljós hvernig þingmenn bregðist við, „en ég held að þetta verði til þess að menn fari í allsherjar naflaskoðun á stjórnmálum, stjórnkerfi, stjórnsýslu og viðskiptalífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert