Kepptu hver við annan í útlöndum

Höfuðstöðvar danska bankans FIH Kaupmannahöfn. Íslensku bankarnir háðu æsilegt kapphlaup …
Höfuðstöðvar danska bankans FIH Kaupmannahöfn. Íslensku bankarnir háðu æsilegt kapphlaup um danska bankann.

Í stað þess að opna nýjar lendur á erlendum mörkuðum voru íslenskir bankar og fyrirtæki í grimmri samkeppni hvert við annað í útlöndum, auk þess að vera í samkeppni hér heima. Þetta kemur fram í skýrslu nefndar, sem fjallaði um  siðferðileg álitamál í tengslum við bankahrunið. 

Í skýrslunni segir, að íslensku bankarnir hafi í raun allir verið að róa á sömu mið í útlöndum. Landsbankinn reið á vaðið með erlenda innlánsreikninga undir nafninu Icesave, Kaupþing fylgdi í kjölfarið stuttu síðar með Edge-reikninga sína og Glitnir var að undirbúa sína reikninga.

Þegar litið er til bankanna hafi þeir virst vera í harðri samkeppni – ekki síst í útlöndum. Íslensk fjármálafyrirtæki voru í útrás en heldur mikið á sama stað og  þvældust þá hvert fyrir öðru.

Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, dótturfélags Kaupþings í Lundúnum, lýsti því í bók sem hann gaf út í fyrra hvernig Kaupþing náði að bjóða í danska FIH-bankann og æsilegu kapphlaupi þeirra við  Landsbankann á síðustu metrunum.

Kaupþingsmenn höfðu veður af áhuga Landsbankans fyrir hreina tilviljun eftir að þeirra tilboð hafði verið handsalað. Landsbankinn bauð síðan betur sem varð til þess að Kaupþing hækkaði sitt boð um 1 milljarð danskra króna.

Ármann telur að Landsbankinn hafi ekki vitað að hann væri að bjóða á móti Kaupþingi fyrr en endalokin voru skýr. Í bók Ármanns kemur þó ekki fram að Glitnir hafði þá þegar gert tilraun til að eignast FIH-bankann.

Einn af ráðgjöfum hans í því ferli var breski bankamaðurinn John Quitter. Hann sagði við íslensku nefndina, að Bjarni Ármannsson, þáverandi forstjóri Glitnis, hafi ekki haft stuðning stjórnarinnar þegar á reyndi.

Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, þáverandi forstjóra Kaupþings, að árið 2004 hafi markað ákveðin tímamót. „Það er það ár sem við tökum yfir FIH og við það verðum við stærsti banki landsins, langstærsti banki landsins og ég held að þá hafi hinum tveimur bönkunum fundist þeim vera ógnað, stöðu þeirra hérna innanlands væri ógnað svo mikið vegna þess hve við vorum orðnir stórir að þeir fara líka í útrás á sama tíma.“

Enda fór það svo að Íslendingar buðu gjarnan hver á móti öðrum. „Þegar
Íslendingar mættu til að bjóða í eignir yfirgáfu aðrir herbergið,“ hafa skýrsluhöfundar eftir John Quitter. „Það var ekki hægt að bjóða á móti Íslendingum. Verðmat þeirra var ekki raunsætt.“

Í sama streng tekur Mark Sismey-Durrant, forstjóri Heritable bankans, sem var  dótturfélag Landsbankans í Lundúnum. Hann telur að það hafi verið almenn  skoðun í Englandi að ekki þýddi að bjóða á móti Íslendingum og Danir voru sömu skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert