Lausmælgi Björgvins G. skýringin

Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi með yfirveguðum hætti haldið honum frá upplýsingum og atburðum. Við skýrslutöku sagði Davíð að skýringin á því sé sú að menn treystu sér ekki til að segja neitt sem ætti að fara leynt við viðskiptaráðherrann. Þetta kemur fram í 19. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (bls. 92-94 í 6. bindi)

Hnakkrifust um Evrópumálin

Hinn 7. nóvember 2007 átti Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fund með stjórn Seðlabanka Íslands. Með viðskiptaráðherra í för voru Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins.

Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að fundurinn hefði hafist með miklum reiðilestri Davíðs Oddssonar út af Evrópumálum. Björgvin sagði að það hefði fokið í sig og hann hefði svarað Davíð fullum hálsi. Það hefði hvarflað að sér að ganga út en síðan hefði Davíð skyndilega stillt sig af og lent samtalinu ágætlega.

Eftir þennan fund hefði hann ekki hitt Davíð Oddsson fyrr en tæpu ári seinna á ríkisstjórnarfundi.

„Margt mjög eitrað og óheppilegt í þessu andrúmslofti"

Björgvin benti í skýrslu sinni á að meðferð bankamála deildist á þrjú ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið og það hefði verið óheppilegt fyrirkomulag „þegar jafnhörmulega árar í samskiptum manna og var í þessari ríkisstjórn“.

Það sem „eitraði hana frá fyrsta degi“ hefði verið tortryggni og andúðin á milli seðlabankastjóra og Samfylkingarinnar.

Um þetta sagði Björgvin: „Heiftin var mjög mikil þarna og menn sniðgengu hverjir aðra greinilega kerfisbundið og ég staðhæfi það að [Davíð Oddsson] hafi með mjög yfirveguðum hætti haldið mér frá upplýsingum og atburðum og ýmsu slíku. [...] Og það var margt mjög eitrað og óheppilegt í þessu andrúmslofti og sérstaklega þegar það ber upp á jafnmiklar ögurstundir og urðu í okkar lífi þegar að alþjóðleg fjármálakreppa varð til þess að þessir alltof stóru bankar fóru á hausinn út af lausafjárskorti.“

Vitað að Björgvin hringdi í bláókunnuga fréttamenn og sagt fréttir „off the record"

Við skýrslutöku var Davíð Oddsson spurður að því hvort ekki hefði verið talið tilefni af hálfu Seðlabankans til að funda oftar með viðskiptaráðherra. Davíð sagði: „[...] við „sorteruðumst“ undir forsætisráðherrann og hann gat kallað menn til og auðvitað tókum við eftir því, og það var ekkert leyndarmál, að viðskiptaráðherra var ekki hafður með á fundum með fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir var á einum eða tveimur fundum. [...] og reyndar var það nú þannig að – það verður bara að segja það eins og er – menn treystu sér ekki til að segja neitt sem ætti að fara leynt við viðskiptaráðherrann, menn treystu sér ekki til þess. [...] Ég held að sú afstaða hafi ráðið því að forsætisráðherra og utanríkisráðherra kölluðu hann ekki á fund með bankastjórninni. Og það sem vakti nú athygli mína var að þegar utanríkisráðherra, formaður hins stjórnarflokksins, lýsti því yfir að hann hefði verið á sex, sjö fundum með Seðlabankanum – hann hafði ekki sagt viðskiptaráðherranum frá neinu sem þar gerðist sem ég hefði nú búist við að mundi gerast.

En ég held að það sé sama ástæðan, það var vitað að viðskiptaráðherra átti það til að hringja í fréttamann, jafnvel bláókunnuga fréttamenn, og segja þeim fréttir „off the record“, eins og það hét. Það getur bara ekki gengið í stjórnsýslunni.“

Geir: Björgvin var ekki sniðgenginn með óeðlilegum hætti

Í þessu samhengi skal þess getið að bæði Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru við skýrslutökur spurð að því hvers vegna Björgvin G. Sigurðsson var ekki kallaður til á margvíslega fundi þeirra með forsvarsmönnum Seðlabankans á árinu 2008, samkvæmt skýrslunni.

Geir ræddi almennt um þetta með eftirfarandi orðum: „Ég tel ekki hægt að segja það að honum hafi verið haldið skipulega frá upplýsingum sem hann átti rétt á. Hann tjáði sig nú mjög oft opinberlega um þessi mál, bæði í þinginu og annars staðar, og gerði það, að því er best varð heyrt, á grundvelli þess að hann hefði upplýsingar og svo er hann náttúrulega í sömu stöðu og aðrir sem lesa gögnin frá Seðlabankanum og kynna sér það sem þeir eru að segja og gera, eins og ég hef sagt hérna nokkrum sinnum. Ég tel ekki að hann hafi verið sniðgenginn með einhverjum óeðlilegum hætti í þessu og hafi honum fundist það þá hefði hann átt að tala um það við mig, sem ég man ekki til að hann hafi gert.“

Ingibjörg kannast ekki við tortryggni í garð Björgvins

Aðspurð um hvort tortryggni hafi gætt innan ríkisstjórnarinnar gagnvart Björgvin svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: „Ekki veit ég til þess. Ég minnist þess ekki að ég hafi heyrt neitt í þá veru frá forsætisráðherra. En sko það er engin launung á því að það var kannski svona sambandið á milli seðlabankastjóra og svo aftur Samfylkingarinnar var að mörgu leyti erfitt, hafði alltaf verið erfitt. Það var bara svona þegjandi samkomulag um að láta það ekkert þvælast fyrir sér, reyna a.m.k. að láta það ekkert þvælast fyrir sér.“

Við skýrslutöku tók Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fram: „[...] í hvaða ríki myndi það gerast að forystumaður ríkisstjórnarinnar hafi fund með seðlabankastjóra, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur sex eða sjö sinnum, og eftir því sem seðlabankastjórinn segir að þá komi þar fram alls konar „warnings“, ég veit ekkert um það, en að viðskiptaráðherra sé ekki látinn vita?“

„Erfitt að sitja þann fund"

Við skýrslutöku lýsti Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, framangreindum fundi viðskiptaráðherra með bankastjórn Seðlabankans með eftirfarandi orðum: „Hann var erfiður, hann var stormasamur. Þeir fóru í pólitíska umræðu, viðskiptaráðherra og formaður bankastjórnar, um upptöku evru eða inngöngu í Evrópusambandið þannig að það var erfitt að sitja þann fund.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert