Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði við rannsóknarnefnd Alþingis að litlu hafi munað að Samfylkingin sliti stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn í byrjun október 2008 „út af Glitnismálinu og Davíð Oddssyni og engu öðru, það sauð svoleiðis á mönnum.“
Í skýrslunni er haft eftir Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að hann hafði hugsað sér að Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið mundu skipa eins konar yfirstjórn vegna nauðsynlegra aðgerða sem þyrfti að grípa til.. „og þá fannst mér eðlilegt að sá maður sem hefði mest „senioritet“ af þessum þremur mönnum sem þarna var verið að tala um, sem sagt formaður bankastjórnarinnar, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, ráðuneytisstjóri – að sá sem hefði mest „senioritet“ yrði formaður [Davíð Oddsson].
Þá kom á daginn, og það stemmir náttúrulega við það sem hafði komið fram á ríkisstjórnarfundinum á föstudeginum, og reyndar kom mér á óvart hversu mikil harka var í því, að iðnaðarráðherrann (Össur Skarphéðinsson) sagði mér að það kæmi ekki til greina. Hins vegar mundi hann samþykkja þennan þriggja manna hóp ef formaður stjórnar bankaeftirlitsins, Fjármálaeftirlitsins, yrði formaður. Með öðrum orðum máttu þetta vera þessir einstaklingar en þeir urðu að sitja þarna í annarri röð en ég hafði lagt til, en þetta gat formaður bankastjórnarinnar hins vegar ekki sætt sig við – og niðurstaðan varð þá sú, og ég reyndar vildi ekki gera það þannig, þannig að við ákváðum að hafa þetta bara hjá okkur í þessum hópi ráðherra.“.
Við skýrslutöku lýsti Björgvin G. Sigurðsson tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum: „Það áttu að vera fulltrúar frá sem sagt forsætisráðuneyti
og fjármálaráðuneyti, og ég segi við borðið: Og það verður að sjálfsögðu
fulltrúi frá viðskiptaráðuneytinu líka og FME, annað hvort. Já, já, auðvitað,
segir hann. En það var ekki inni í tillögunni sem var greinilega samin af Davíð
og hann átti að vera formaður og svo áttu þetta að vera fulltrúar frá þessum
tveimur ráðuneytum, enginn frá sem sagt okkur. Og ég geri strax tillögu um
að Jón Sigurðsson fari þarna inn.
Og við biðjum svo um fundarhlé, af því að þarna er Davíð á fundinum, Davíð og Ingimundur voru þarna, og við förum fram Samfylkingarráðherrarnir og segjum að það munum við aldrei samþykkja að Davíð verði formaður hópsins og Össur fer og segir Geir það og hann, honum brá alveg rosalega, bara var mjög brugðið yfir því og held ég að hann hafi sagt, bað hann að gera sér þetta ekki. En það var alveg klárt af okkar hálfu, við hefðum frekar – við vorum alltaf með það á hreinu, alla þessa viku lá undir að menn voru að spá í hvort við ættum að sprengja stjórnina á þessu máli öllu, Glitnismálinu, og Össur vildi það, en ekki formaðurinn, þannig að það munaði litlu að við gerðum það út af Glitnismálinu og Davíð Oddssyni og engu öðru, það sauð svoleiðis á mönnum.“
Björgvin sagði einnig: „Og þá endar þetta á því að fyrst að Davíð var ekki formaður þá var þessi stjórn aldrei skipuð og þá var bara ákveðið að ráðherrarnir sjálfir væru í þessu, þannig að þetta var [...] það síðasta sem við sáum af Davíð, hann bara yfirgaf bústaðinn og í rauninni kom ekkert mikið meira nálægt þessu ferli."
Davíð Oddsson lýsti tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum:
„[...] fyrst ætlaði forsætisráðherrann að hafa þriggja manna yfirstjórn og
bað mig á fundi að vera yfirmaður þeirrar yfirstjórnar og þá hótaði Össur
Skarphéðinsson stjórnarslitum, hann sagðist geta sætt sig við Jón Sigurðsson
sem var mjög hlægilegt. Ég sagði þá við forsætisráðherra að mér væri alveg
nákvæmlega sama um þetta [...] enda vorum við að verða örmagna þarna við
vorum svo þreyttir, en ég sagði við hann að hann ætti bara að vera formaður
sjálfur og finna svo einhverja menn, ekki vera að láta Össur hóta sér stjórnarslitum.
Þetta er náttúrulega ekkert vit að vera í ríkisstjórn sem að á örlagatíma er að hóta stjórnarslitum út af hinu og þessu, þetta var tóm vitleysa allt saman, var orðið það.“
Davíð sagði einnig: „[...] það er það fyrsta sem ég verð var við að Samfylkingin sé að kaupa þetta fjölmiðlafár. Svo kemur hann inn og var þá í öngum sínum Geir og kannski svona fannst þetta ósvífið gagnvart mér hann er í öngum sínum þarna að menn ætli að fara út úr stjórninni á versta tíma. Ég sagði: Blessaður vertu ekki, láttu hann ekki vera að setja, þennan pilt setja þig upp að vegg, segðu bara að þú verðir formaðurinn og það þurfi ekki að vera að tala um einhverja aðra menn og þá er ég ekkert að trufla þá mynd, ég get ekki hugsað mér að vera að trufla þá mynd í augnablikinu.“
Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum:
„En á þessum fundi þá er Davíð, og Geir, og Geir kemur allt í einu með þessa tillögu um að setja upp neyðarstjórn. Ókei, það er ráðherranefnd, formleg ráðherranefnd og síðan áttu að vera ráðuneytisstjórar þar undir og hann segir: Og ég tel þá eðlilegt að ég sem forsætisráðherra tilnefni formanninn. Það kom hik á mig og hann sá það og talið berst þá eitthvað annað. Og þá, svo kemur hann allt í einu með: Minn fulltrúi og þar með formaður, þess sem hann kallar neyðarstjórn og átti að vera svona að „executera“ þetta allt sem þurfti, sjá um þessa daglegu neyðarstjórnun, á að vera aðalbankastjóri Seðlabankans. Þá bað ég um fundarhlé og sagðist ekki fallast á það en bað um fundarhlé og það var fundarhlé og Geir kom og talaði við mig og var mjög stressaður. Ég sagði að það kæmi ekki til greina, hann gæti beðið okkur um að ganga héðan út og rekið okkur úr ríkisstjórninni, en [...] ég gæti ekki fallist á þetta, ég hefði ekki heimild til þess. Ég hefði lýst því yfir í ríkisstjórninni að þessi maður væri ekki hæfur og hann myndi ekki geta byggt það samstarf við ríkisstjórn eins og hefur komið fram, hann væri í reynd að leggja til að hún legði niður störf og önnur stjórn tæki við.
Þetta þýddi það að það ætti auðvitað að vera fullkominn trúnaðarbrestur á milli hans líka og Davíðs, og sagði honum þetta. Og frá því er skemmst að segja að hann nánast skalf og nötraði. Han sagði: „Þú getur ekki gert mér þetta. Ég get ekki farið þarna upp og sagt þetta við Davíð.“ „Það er það sem þú verður að gera“, sagði ég. Þetta var töluvert langt fundarhlé og svo fór hann upp og skömmu síðar heyrðum við þung skref eftir ganginum, og Davíð Oddsson gekk út og kom ekki aftur.
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum tölvubréf sem Össur
Skarphéðinsson sendi kl. 1:25 aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Í
bréfinu segir Össur að fyrr um kvöldið hefði Geir H. Haarde lagt til að Davíð
Oddsson yrði settur yfir „neyðarstjórnun hugsanlegs kerfishruns“.