Nei nei, ekkert að gerast

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherrar.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherrar.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, hrigndi í Tryggva Þór Herbertsson, þáverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, laugardaginn 27. september 2008, þegar viðræður voru hafnar um að ríkið tæki Glitni yfir. Svarið var: „Nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim.“

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um aðdraganda þess að ríkið tók Glitni yfir í lok september 2007.

Við skýrslutöku hjá nefndinni lýsti Jón Þór  því að laugardaginn 27. september 2008 hefði hann verið í skemmtiferð fyrir utan höfuðborgarsvæðið ásamt  Björgvin og öðrum starfsmönnum viðskiptaráðuneytis. Eftir að Jón frétti af því að mikil fundarhöld væru í forsætisráðuneytinu hefði hann hringt í Tryggva Þór Herbertsson um kl. 16 eða 17. Tryggvi hefði hins vegar varist allra frétta og ekki gefið neitt upp.

Við skýrslutöku sagði Björgvin: „Fyrr um helgina höfðu borist fréttir af einhverjum fundum Davíðs (Oddssonar) og Árna (M. Mathiesen) og Geirs (H. Haarde) og við fylgdumst með því og ég man að ég bað Jón Þór að forvitnast um það, ég bað hann að hringja í Tryggva Þór, en þeir voru ágætis kunningjar.

Jón hringdi í Tryggva, að mér heyrandi, og gekk mjög á hann á laugardeginum, og hinn bara fullyrti alveg „nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim“, og bara alveg blákalt. Og Jón trúði honum og við bara líka, maður reiknar ekki með því að það sé alltaf verið að ljúga að manni. Við sem sagt, af því að við vorum mjög að pæla mikið í því af hverju þeir væru að funda og svona og okkur fannst þetta besti „kanallinn“ að þeim og svo ekki meira um það.“

Í skýrslunni er einnig haft eftir Björgvin, að á sunnudagskvöldinu klukkan níu hafi Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, hringt í sig og spurt sig hvort hann hafi eitthvað heyrt um það sem gangi á uppi í Glitni.

„Fyrr um helgina höfðu borist fréttir af einhverjum fundum Davíðs og Árna og Geirs og við fylgdumst með því... Við  vorum mjög að pæla í því af hverju þeir væru að funda og svona og okkur fannst þetta besti kanallinn að þeim og svo ekki meira um það. Svo bara þarna hringir hún [Jóhanna Sigurðardóttir] í mig og segir mér þetta og mér náttúrulega brá alveg svakalega,“ er haft eftir Björgvin.

Jóhanna sagði við nefndina, að hún hefði ákveðið að hringja í Björgvin til að
leita frekari upplýsinga, taldi að hann hlyti að vita þá eitthvað meira um stöðuna. „Og hringdi í hann klukkan [21:00] og hann kom algjörlega af fjöllum og alveg ljóst að hann vissi ekkert í þessu máli [...],“ er haft eftir Jóhönnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert