Meðal þess sem er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er skjal sem tekið er saman af Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins: „Ólystugi matseðillinn“. Þar eru dregnar fram helstu stefnumarkandi ákvarðanir
sem stjórnvöld þurfi að taka í aðdraganda fjármálaáfalls.
Möguleg ákvarðanataka á undirbúningsstigi
1. Á að auka möguleika fjármálafyrirtækja til þess að selja fjármálagerninga til opinberra aðila?
2. Fjárhæð (umfram lágmarkstryggingavernd) sem ríkið er reiðubúið að ábyrgjast.
3. Heildarfjárhæð mögulegs eiginfjárstuðnings. 4. Skýr afmörkun aðila sem munu njóta stuðnings – fjárhagsleg viðmið og kerfislegt mikilvægi.
5. Meginskilyrði sem sett yrðu fyrir eiginfjárstuðningi (stjórnendur, þynning hluta, sala eigna).
6. Hafa reiðubúin lagafrumvörp um eiginfjárstuðning (þynningu hluta), þvingaðan samruna, brúunarbanka.
7. „Val“ á almannatengslafyrirtæki.
Fjallað er um þetta í nítjánda kafla rannsóknarskýrslu Alþingis í sjötta bindi skýrslunnar.
Bolli kynnti forsætisráðherra „Ólystuga matseðilinn“
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, spurður hvort hann hefði kynnt forsætisráðherra „Ólystuga matseðilinn“. Það kvaðst Bolli hafa gert. Á þessum tíma hefði hins vegar þótt mjög fjarlægt að bankarnir féllu:
„Þetta var eitthvað svo ótrúlegt að þetta gæti gerst að ég held að fæstir ef nokkrir hafi verið farnir að gíra sig inn á að við lentum í þessu, á þessum tíma.“
Um sama efni sagði Bolli einnig: „Nei, ég held að, auðvitað var þetta möguleiki en innst inni hafi menn eiginlega neitað að trúa að þetta myndi gerast. Þetta var kannski, svona umræðan á alþjóðavettvangi var auðvitað þannig að sumir voru bjartsýnir, aðrir svartsýnir, sumir töldu að hið versta væri yfirstaðið.“ Aðspurður hvenær menn hafi yfirleitt talið að fall bankanna gæti orðið að veruleika sagðist Bolli telja að það hefði verið eftir fall Lehman Brothers um miðjan september 2008.
Geir neitaði að hafa verið kynnt efni „Ólystuga matseðilsins“
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Geir H. Haarde sýnt skjalið „Ólystugi matseðillinn“ og hann spurður hvort honum hefði verið kynnt efni skjalsins. Geir svaraði því neitandi.