Ótæk vinnubrögð

Rannsóknarnefnd Alþingis segir í skýrslu sinni, sem kom út í dag, að vinnubrögð yfirvalda við viðlagaundirbúning með það að markmiði að verja fjármálakerfi landsins og aðra grundvallarhagsmuni ríkis og þjóðar í byrjun október 2008 hafi verið ótæk.

„Þau voru á engan hátt í samræmi við það hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu haga almennt starfsháttum sínum," segir rannsóknarnefndin í skýrslunni. 

Fram kemur, að  eftir að ljóst varð að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málum Glitnis undir lok september 2008 höfðu ekki borið árangur hafi tekið við ákveðið stjórnleysi við í viðbúnaðarmálum ríkisins. Seðlabanki og ríkisstjórn gengu ekki í takt og yfirstjórn skorti. Þá var ekki  tekið af skarið um hvert stefna bæri.

Með því að kveðja til hóp sérfræðinga að morgni 4. október 2008 tók  forsætisráðherra loks ákvörðun og lagði málið í ákveðinn farveg. Var þar um að ræða þriðja hópinn á skömmum tíma sem hafði verið falið að vinna að viðlagaundirbúningi.

Samráðshópur stjórnvalda hafði fengist við viðlagaundirbúning frá 21. febrúar 2006 til 3. október 2008. Hópur sem Seðlabankinn kvaddi til vann að viðlagaundirbúningi frá 30. september til 3. október 2008. Hinn nýi sérfræðingahópur forsætisráðherra vann síðan að viðlagaundirbúningi frá 4. október 2008. Í upphafi fékk hann þó ekki aðgang að öllum afrakstri vinnu hinna hópanna tveggja.

„Til marks um það hversu lítill grunnur var lagður að þessu starfi má nefna að það var fyrsta verkefni hópsins að prenta út ársreikninga stóru fjármálafyrirtækjanna á starfsstöð eins meðlima hópsins í Háskólanum í Reykjavík. Framangreind vinnubrögð yfirvalda við viðlagaundirbúning með það að markmiði að verja fjármálakerfi landsins og aðra grundvallarhagsmuni ríkis og þjóðar voru ótæk," segir rannsóknarnefndin.

Neyðarlög í miklu tímahraki

Rannsóknarnefndin segir, að þegar kom að samningu hinna svokölluðu neyðarlaga, sem sett voru 6. október 2008, megi í stórum dráttum segja að það eina sem kom sýnilega að notum úr vinnu samráðshóps stjórnvalda hafi verið þau drög að ákvæði, sem varð að 100. grein laga   um fjármálafyrirtæki.

„Í grófum dráttum voru önnur ákvæði neyðarlaganna samin dagana 4.–6. október 2008 í miklu tímahraki. Mörg hver voru afar flókin og yfirgripsmikil. Þeir sem sömdu þau nutu ekki aðstoðar sérfræðinga á sviðum sem mikið hlaut þó að reyna á við útfærslu frumvarpsins, t.d. á sviði gjaldþrotaréttar," segir rannsóknarnefndin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert